22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

27. mál, bændaskóli

Lárus Helgason:

Jeg efast ekki um, að hv. flm. brtt. hafi borið þær fram af góðum hug. Nú hefir verið sýnt fram á, að þær verða ekki að tilætluðum notum, þar sem þær komi ekki til með að gilda nema eitt ár. En þó að svo væri, fæ jeg ekki sjeð, að þær yrðu til bóta, síst sú fyrri. Jeg efa það ekki, að hæstv. stj. hafi fullan hug á, að verklega kenslan komi að sem mestum notum. En jeg fæ ekki sjeð, að brtt. ýti undir það. Að minsta kosti eru þær skorður settar með brtt., að piltar verða að hafa leyst af hendi hið verklega nám á fyrra ári, svo að þeir fái inngöngu í efri deild. Nú getur það vel komið fyrir, að piltar, sem eru í skólanum, eigi erfitt með að vera hinn tilsetta vikufjölda við verklegt nám á fyrra ári sínu í skólanum. Og svo eiga þeir ekki að fá að setjast í efri deild, þó að þeir vilji ljúka því, sem á vantar verklega námið, á næsta vori. Mjer finst því ekkert vit í að samþ. þetta. Brtt. hæstv. forsrh. virðist mjer nær sanni, því að þar eru ekki settar eins ríkar skorður, og mun jeg því hiklaust greiða henni atkv. mitt.

Jeg felst á það með háttv. 1. þm. Skagf., að rjettast sje að taka málið út af dagskrá, með því að till. var svo seint útbýtt. Þetta er ekkert smámál og gott fyrir hv. þm. að fá tíma til að athuga það. Enda ætti það ekki að vera neinum kappsmál, að málið verði rekið áfram með hasti. Mælist jeg svo til þess fyrir hönd nefndarinnar, sem um það fjallar, að málið verði tekið út af dagskrá.