13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi við 1. umr. í hv. Ed. skýrt þetta mál nokkuð, og ætla þess vegna ekki að fara ítarlega út í það nú. Það hefir rækilega komið fram við meðferð málsins, sem ef til vill ekki allir hjer vita, að ástandið er orðið alveg óviðunandi hvað hegningarhúsið snertir. Það er orðið alt of lítið og óhentugt, og það er jafnvel svo, að menn, sem hafa verið dæmdir, koma til bæjarfógeta hjer eða fangavarðar og spyrja, hvenær þeir muni geta komist að, en þá er sjaldnast hægt að taka á móti þeim, af því að alt húsrúm er upp tekið.

Ennfremur er óhægt að einangra fangana, því að bæði er, að garðurinn umhverfis húsið er of lágur, og svo hefir bærinn látið byggja skúra upp að fangelsisgarðinum, og er slíkt sjerstaklega óhentugt, þegar menn eru undir rannsókn. En ef til vill koma gallar núverandi fangahúss einna skýrast í ljós, þegar fangar eru jafnframt sjúklingar, og það kemur ósjaldan fyrir. En þar eru engin húsakynni til þess að taka á móti slíkum mönnum, þegar þeir koma með læknisvottorð um það, að þeir þoli ekki almenna fangavist. Þá verður annaðhvort að sleppa þeim við fangavistina eða grípa til bráðabirgðaúrræða. Nú er eitthvað til af mönnum, sem hafa fengið dóm og hafa líka berklaveikivottorð. Nokkrir berklaveikir áfengissalar hafa verið teknir og dæmdir. Hefir þeim verið komið fyrir suður í Hafnarfirði, ýmist á spítala þar eða undir eftirliti bæjarfógetans. En þetta er nokkuð kostnaðarsamt og alls ekki hugsanlegt til frambúðar.

Jeg nefni þessi dæmi aðeins til þess, að þeir hv. þm., sem ekki eru kunnugir hjer, sjái, hvernig ástandið er. Við það verður ekki unað til lengdar, og bæjarfógetinn í Reykjavík sagði við 2. umr. þessa máls í Ed., að ástandið væri svo slæmt, að hann fagnaði hverri tilraun, sem gerð væri til þess að reyna að bæta úr því, jafnvel þótt ekki væri nema til bráðabirgða.

Jeg skal að vísu játa það, að ekki hefir mikill tími unnist til undirbúnings þessu máli síðan nýja stjórnin tók við. En þar sem bæði bæjarfógetinn í Reykjavík og sýslumannastjett landsins hefir ýtt fast á eftir því, að eitthvað væri gert, þá varð það úr að leggja þessi heimildarlög fyrir þingið. En jeg hefi áður tekið það fram, að jeg myndi þó varla hugsa til, að heimildin yrði notuð í sumar, nema því aðeins, að við nánari athugun þætti tiltækilegt að nota hús, sem landið á nokkuð mikið í og stendur austur í Árnessýslu. Jeg á hjer við sjúkrahúsið á Eyrarbakka, sem landið hefir lagt nokkuð mikið fje í. En Landsbankinn hefir nú tekið það í sínar hendur upp í nál. 20 þús. kr. skuld, sem á því hvíldi. Þessa skuld myndi ríkið verða að yfirtaka, ef til kæmi, og húsameistari ríkisins hefir gert lauslega áætlun um, að það mundi verða hægt að setja húsið í lag fyrir þá upphæð, sem talað er um í frv. Húsameistari er nú erlendis, og eitt af því, sem stjórnin hefir beðið hann um að gera, er að heimsækja nýtísku fangelsi ytra, til þess að geta gefið stjórninni ráðleggingar um það, hvernig slíkri stofnun yrði best fyrir komið. En áður en nokkuð verulegt gerist í þessu máli, geri jeg helst ráð fyrir, að senda þurfi mann til útlanda til þess að sjá og kynna sjer þær bestu fyrirmyndir, sem til eru, og undirbúa betur þetta nýja fyrirkomulag.

Annað nýtt í þessu frv. er það, að gert er ráð fyrir, að koma megi upp vinnustofu í sambandi við þetta fangelsi fyrir menn, sem t. d. ekki sjá fyrir börnum sínum, en eru þó vinnufærir. Nú liggur fyrir þessari hv. deild bráðabirgðabreyting á hegningarlögunum, þar sem það er gert hegningarvert að vera slæpingi. Það er óhætt að fullyrða, að slík stofnun myndi ekki aðeins verða til gagns fyrir Reykjavíkurbæ, heldur líka mörg önnur sveitarfjelög á landinu. Hún mundi verða mikils virði, m. a. vegna þess, að menn, sem annars vildu ekki vinna, myndu heldur kjósa það en að verða settir í slíkt hæli.

Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem er sá maður, sem hefir mesta reynslu allra þingmanna í þessum efnum, hefir látið þá skoðun í ljós, bæði á þingi og endranær, að hann gerði ráð fyrir, að Eyrarbakkaspítalinn yrði hentugur fyrir slæpingjahæli og sjúkradeild, en hinsvegar ekki ósennilegt, að fljótlega yrði hallast að því að hafa hið eiginlega betrunarhús annarsstaðar, og þá nær bænum. Fyrir mitt leyti get jeg vel hallast að því, að þetta kunni að verða niðurstaðan í framtíðinni.

Þetta frv. er aðeins heimildarlög, og jeg tek það fram aftur, að ekki er hugsað til að nota þau, nema því aðeins, að framkvæmanlegt þyki að nota sjúkrahúsið. Reynist það ekki fært, kemur málið aftur fyrir næsta þing, og þá sennilega á öðrum grundvelli en nú.