29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

25. mál, kynbætur nautgripa

Halldór Stefánsson:

Jeg bar fram dagskrá við 2. umr. þessa máls, sem jeg tók aftur samkvæmt tilmælum hæstv. atvmrh., til þess að menn ættu frekar kost á að átta sig á málinu til 3. umr. Jeg sýndi fram á, að ólíku er saman að jafna, þar sem eru kynbætur hrossa og nauta, að því leyti að erfiðara er að framkvæma kynbætur nauta með sama skipulagi. Í öðru lagi benti jeg á, að kostnaðurinn væri mikill og miklu meiri en svo, að sú upphæð, sem tiltekin er í frv., muni hrökkva. Hv. þm. Barð. (HK) hefir nú borið fram tillögu um að hækka þessa upphæð, en ekki nærri nógu mikið. Í þriðja lagi benti jeg á, í hverju kostnaðurinn væri aðallega fólginn: Annaðhvort þyrftu menn að koma sjer upp mörgum og rambygðum girðingum, eða að öðrum kosti að ala nautin í húsum á sumrin. Jeg gat þess einnig, að af samþ. frv. gæti leitt beint tjón, þar sem menn vegna kostnaðarins yrðu að hafa nautin sem fæst, en það gæti aftur orðið orsök að því, að bændur mistu þann tíma á kúm sínum, sem væri þeim hentugastur.

Mjer virðist árangur kynbótanna í nautgriparæktarfjelögunum hafa verið æðiseinvirkur. Jeg man, að fyrir að minsta kosti 10 árum var sagt á bændanámsskeiði í fyrirlestri um þetta efni, að meðalnytin í nautgripakynbótafjelögunum væri 2200 lítrar, en nú er mjer sagt, að hún sje 2230 lítrar. Þetta er lítill árangur, svo lítill, að ekki er vert að vera að stofna til mikils óhagræðis vegna hans. En í lögum er nú þegar heimild fyrir menn til að stofna af frjálsum vilja til kynbótastarfsemi. Hún hefir eitthvað verið notuð, og þar sem til eru heimildarlög, sem menn geta notað, ætti engin þörf að vera á því að lögskylda þetta nú þegar, fyrirvaralaust. Það er í alla staði eðlilegra, að bændum sje gefið tækifæri að athuga það fyrirkomulag, sem hjer er stungið upp á. Jeg leyfi mjer því enn á ný að afhenda hæstv. forseta svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Þar sem framkvæmd nautgripakynbóta eftir ákvæðum þessa frv. er sýnilega ýmsum annmörkum og erfiðleikum háð og bændur landsins hafa ekki átt kost á að láta uppi álit sitt um efni frv., þá þykir deildinni ekki rjett, að frv. verði afgreitt á þessu þingi, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá“.