29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

25. mál, kynbætur nautgripa

Frsm. (Lárus Helgason):

Jeg ætla að segja fáein orð fyrir hönd landbn. um brtt. hv. þm. Barð. (HK) á þskj. 323. Nefndin hefir tekið hana til athugunar, en ekki getað fallist á, að hún sje til bóta. Eins og jeg tók fram við 2. umr., er ekki hægt að sjá annað en að fulltrygt sje það, sem í frv. stendur um það, sem tillagan á við. Nefndin getur ekki betur sjeð en að ef brtt. væri samþ., yrði það jafnvel frekar til þess að kreppa að þessu máli en greiða fyrir því. Þó að einhverjir kynnu að komast undan því að nota kynbótanautin, yrðu þeir aldrei margir. Kostnaðurinn virðist nefndinni vera nógur 8 krónur á hverja kú. Ef það nægir ekki, á sveitarsjóður að taka við. En það atriði gerir nefndin ekki að neinu kappsmáli.

Um dagskrá hv. 1. þm. N.-M. (HStef) skal jeg geta þess, að eins og jeg ljet í ljós við 2. umr., hefir nefndin ekki getað fallist á hana. Hún væntir þess, að frv. nái fram að ganga eins og það liggur nú fyrir. Hv. 1. þm. N.-M. virðist gera alt of mikið úr kostnaðinum við girðingar o. s. frv. En vitaskuld getur þetta mál ekki náð fram að ganga, nema eitthvað sje lagt í sölurnar. Hjer er til mikils að vinna, svo að ekki dugir að horfa í smákostnað. Enda ætti hann innan fárra ára að borga sig, sem sagt væntir nefndin þess, að hv. deild samþ. frv. óbreytt.