08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

16. mál, búfjártryggingar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það væri ákaflega æskilegt, ef hægt væri að lifa eftir lögmáli hv. frsm. minni hl. og gera öll lög svo vel úr garði, að aldrei þyrfti að breyta þeim. En vjer mennirnir erum nú einu sinni svo ófullkomnir, að verk vor standa til bóta. Hins er og að gæta, að reynslan kennir mönnum ávalt ýmislegt, sem ómögulegt er að sjá fyrirfram. Og mönnum er þetta líka flestum ljóst. Jeg skal taka það sem dæmi, að þegar jarðræktarlögin voru sett 1923, var beinlínis gert ráð fyrir því í þeim sjálfum, að þau yrðu endurskoðuð. Jeg tók það þá fram við 1. umr. í þingræðu, að óhjákvæmilegt mundi verða að breyta þessu frv., er reynsla ykist. Þau ummæli get jeg endurtekið.

Hv. frsm. minni hl. hjelt, að ákvæði 5. gr. mundu reynast hættuleg. Jeg er sammála honum um, að rjett sje að fara varlega í að beita þeim. Jeg hefi jafnvel gert ráð fyrir, að þau kæmu ekki til framkvæmda fyr en búið er að endurskoða lögin.

Dæmið, sem hv. frsm. tók um smábændurna í Mosfellssveit, var ekki heppilega valið. Ef þeir samþykkja að stofna til tryggingar, er rjett, að þeir taki afleiðingunum af gerðum sínum. Frv. gerir líka ráð fyrir baktryggingarsjóði, og hann mundi bera hallann, ef svo stæði á sem hv. frsm. talaði um. (JKr: En þá hækka iðgjöldin). Já, en bændur, sem eiga margar kýr, borga meira en hinir. Um iðgjöld til nautgripatrygginga höfum vjer erlendar fyrirmyndir, því að þeir eru víða vátrygðir. Og vjer verðum a. m. k. að gera ráð fyrir, að þeir verði það einnig hjer.