08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

9. mál, menntamálaráð Íslands

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Mentmn. hefir ekki getað orðið sammála um þetta frv., heldur klofnað, og leggur hvor hluti nefndarinnar fram sitt álit.

Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á, að sú breyting, sem frv. gerir á skipun þeirra mála, sem samkvæmt frv. koma til með að heyra undir mentamálanefnd Íslands, sje til bóta, og leggur því til, að frv. sje samþykt óbreytt.

Eins og nú standa sakir, heyrir það undir stjórnarráðið að úthluta fje því, er Alþingi veitir árlega til listamanna og skálda. Einnig úthlutar stjórnarráðið styrk þeim, sem ætlaður er til verklegs náms erlendis. Aftur á móti er það sjerstök nefnd manna; sem ætlað er að ákveða, hverjir hljóti styrk þann, er veittur er af opinberu fje 4 stúdentum árlega til náms við erlenda háskóla.

Samkv. frv. á nú alt þetta, ásamt fleiru, að sameinast á hendur einni nefnd. Það má ef til vill segja, að það sjeu helst til óskyld mál, sem hjer er verið að draga undir einn og sama hatt.

En því er nú einu sinni svo farið, að þau þessara mála, sem til þessa hafa heyrt undir stjórnarráðið, verða þar ekki farsællegar af hendi leyst en ef þau væru falin fastri nefnd, þegar þess er gætt, hve tíð eru taumaskifti í Stjórnarráðinu, þegar ráðuneytið er eitt árið skipað íhaldsmönnum, annað árið framsóknarmönnum, og kannske er fram líða stundir jafnaðarmönnum í þriðja tilfellinu. Það yrði því að líkindum til þess að auka festu og öryggi um meðferð þessara mála, ef þau heyrðu undir sjerstaka nefnd, er kosin væri af Alþ. Sennilega mundu verða valdir í þá nefnd líkir menn frá ári til árs, og kæmu þeir því til með að verða æfðir í þessu starfi.

Minni hl. mentmn. hefir lagt fram allmikið nál. Þótt þar sje ekki beinlínis gengið á móti frv., felur það þó það í sjer, að ef brtt. þær, sem þar eru gerðar, eru samþ., þá er frv. um leið búið að tapa tilgangi sínum.

Meiri hl. mentmn. lítur svo á, að ef að nokkru leyti eigi að fylgja þeim anda, sem felst í þessu frv., þá sje ekki um annað að gera en fella allar brtt. hv. minni hl.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að segja meira um frv. Till. meiri hl. er sú, að háttv. deild samþykki það óbreytt.