21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. var óánægður yfir því, að Reykjavík væru veitt hjer hagstæðari kjör en öðrum hjeruðum landsins hafi verið veitt hingað til.

Hv. þm. virðist gleyma því, að jeg hefi í Ed. reynt að fá tillagið til sundlaugabygginga hækkað, en ekki tekist það vegna mótstöðu íhaldsins, hans eigin flokksbræðra. Og þegar litið er til mótstöðu þeirra gegn samskonar byggingu við Laugaskólann, þá er einkennileg umhyggja sú, er nú kemur fram hjá honum fyrir hönd annara hjeraða. En ummæli hv. þm. ættu þó að gefa vonir um, að hann yrði síðar með hlutfallslegri hækkun styrks til sundlauga í sveitum.

Þá spurði sami hv. þm., hvort stjórnin hugsaði sjer að hækka tillag til þeirra, sem þegar hafa fengið styrk úr ríkissjóði til sundlauga. Ef rjett væri að taka upp að nýju hið svonefnda Krossanesmál, þá ætti að mega gera hitt líka. Er rjett að spyrja hv. þm. um álit hans í því efni.

Hv. 1. þm. Reykv. var að bera saman sundhöll og heimavistir við mentaskólann. Þó er þar ólíku saman jafnað, meðal annars af því, að sundhöllin á að geta borið sig fjárhagslega. Mætti meira að segja sennilega gera hana að gróðafyrirtæki, ef almenningshagur mælti ekki á móti því. En um heimavistirnar var um beinan framhaldskostnað að ræða, sem ríkið hefði orðið að taka á sínar herðar.

Hv. 1. þm. Reykv. var eitthvað að gefa mjer að sök, að jeg hefði brotið lög, af því að jeg hefði ekki fundið heppilegri leið til úrlausnar. Ef á annað borð þarf að brjóta lög, geri jeg ráð fyrir, að það geti hent mig ekki síður en aðra. Í því sambandi get jeg bent honum á, að einn þektur þm. í hans flokki, hv. þm. Snæf., lýsti því yfir í gær í þingræðu, að ekki hefði verið hjá því komist í fyrra að brjóta þingsköpin. Þess vegna vonast jeg eftir, þegar hv. 1. þm. Reykv. sjer svo fagurt fordæmi í lögbrjótaheimspekinni, að hann viðurkenni, að hjá mjer geti einnig sannast hið fornkveðna: að nauðsyn brýtur lög. (MJ: Var þá haldið áfram að brjóta þingsköpin?). Fordæmið var fengið og því var haldið áfram meðal annars af þeirri einföldu ástæðu, að rjett þótti, að íhaldið, sem brotið hafði lög á andstæðingum sínum í fyrra, fyndi nú, hvernig það væri, að brotin væru lög á þeim. (MJ: En mórallinn!).

Því var óspart haldið fram í fyrra af þáverandi stjórnarflokki, að andstöðuflokkurinn notaði máltafir að óþörfu. En hvað gera andstæðingar núverandi stjórnar í dag? Þeir teygja tímann með endalausum útúrsnúningum um mál, sem þeir þykjast þó vera fylgjandi. Ef þetta er ekki sönnun um óþarfa máltafir, þá veit jeg ekki, hvað það er, nema þá að á þeim ætli að sannast, þegar fýkur í íhaldsskjólin: að hægra er að kenna heilræðin en halda þau.