13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Hannes Jónsson:

Hv. þm. Borgf. ljet svo um mælt, að það væru einungis gjaldendur Reykjavíkur, sem fylgjandi væru þessu máli. Jeg get frætt hv. deild á því, að þetta mál kom til umræðu á þingmálafundi á Hvammstanga, og einhver atkvæðamesti maður hjeraðsins lagðist þar eindregið á móti því og vildi láta gömlu hlutföllin haldast um land alt. En þrátt fyrir það var samþykt þar áskorun til þingsins um að veita umrædda fjárhæð til sundhallar í Reykjavík, og að framvegis yrðu sömu hlutföll í fjárveitingum til sundlauga úti um land. Mjer skilst á því, sem hjer hefir verið sagt, að það hafi einnig átt að standa í fjárlagafrv. stjórnarinnar og muni koma þangað. Jeg mun því greiða atkvæði á móti þeim brtt., sem hjer liggja fyrir. Það hefir verið talað um, að þessi fjárveiting skapaði misrjetti. En jafnvel þótt ekki yrði breytt hlutföllum um framlög til sundlauga úti um land, tel jeg, að leggja beri alveg sjerstaka áherslu á sundhallarmálið hjer í Reykjavík. Jeg hefi ekki haft neina blinda ást á Reykjavík, en jeg verð að viðurkenna, að við sveitamenn höfum margt gott þangað sótt, og eitt með því besta er sundkunnáttan. Sundkunnáttu var mjög ábótavant fyrir nokkrum árum síðan og sund ranglega kent allvíða. Nú er orðin mikil breyting á þessu til batnaðar, einmitt vegna þess, að menn hafa numið rjettar aðferðir í Reykjavík og kent þær út frá sjer. Jeg get fært sönnur á þetta, ef með þarf, því að sjálfur hefi jeg fengist nokkuð við sundnám og sundkenslu.

Sundhallarmálið er mikill þáttur í undirbúningnum fyrir hátíðahöldin 1930, og þótt sá undirbúningur komi Reykjavík að nokkru meira gagni en öðrum landshlutum, má ekki láta hann undir höfuð leggjast þess vegna. Sundhöllin gerir hátíðahöldin veglegri en ella og eykur um leið menningu í landinu. Jeg tel mikilsvert, að þetta mál nái fram að ganga og að inn í fjárl. komist, að breytingin á hlutföllum á fjárframlagi úr ríkissjóði til sundlauga nái einnig til annara landshluta.