14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Frsm. (Jón Þorláksson):

Nefndin hefir orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ., en hefir aðeins borið fram 2 brtt. á þskj. 451, sem eru nánast orðabreytingar.

Fyrri brtt., að í stað „Alþingi heimilar landsstjórninni“ komi: „Landsstjórninni er heimilt“, er, eins og sjá má, aðeins orðabreyting til þess að fylgja þeirri venju, er verið hefir, enda bendir núverandi orðalag frekar til þál. en laga.

Þá er síðari brtt., við niðurlag frv., og í henni felst meira en orðabreyting. Þessu ákvæði var bætt inn í Nd. og gerir ráð fyrir því, að ráðuneytið ákveði aðgangseyri til eins árs í senn, að fengnum till. bæjarstjórnar. Nefndinni finst þetta óþarflega vafningamikið og finst rjettara að orða þetta þannig, að aðgangseyrir skuli ákveðinn í gjaldskrá, er bæjarstjórn setur og ráðherra samþykkir, og verði þannig breytt eins oft og þörf þykir á. Hygg jeg einnig, að þetta sje fullkomlega í samræmi við liðinn á undan, þar sem segir, að bærinn megi ekki selja aðgang dýrari en þarf til þess að fyrirtækið beri sig.

Einn nefndarmanna, hv. 2. þm. N.M, hefir flutt brtt. um að færa framlag ríkissjóðs úr 100 þús. kr. niður í 75 þús. kr., og mun hann eflaust gera grein fyrir henni. Meiri hl. hefir hinsvegar getað fallist á frv., en gerir það með þeim skilningi, að kosti fyrirtækið ekki yfir 200 þús. kr., greiði ríkissjóður helming þeirrar upphæðar, en reynist það dýrara, sje ríkissjóður ekki skuldbundinn til þess að greiða það, sem fram yfir kann að verða, en gerir ráð fyrir því, að Reykjavík sem eigandi leggi fram það, sem með þarf.

Jeg vil um leið nota tækifærið til þess að þakka hæstv. dómsmrh., sem jeg annars er ósammála í mörgum málum, fyrir það, að hann flutti þetta mál, og þótt það sje álit mitt, að fullkomna gleði fái notendur ekki af þessu fyrirtæki, fyr en kostur er á meiru heitu vatni, þá er jeg hinsvegar sannfærður um, að þess muni ekki langt að bíða, að úr því verði bætt. Þótt aðrensli sje svo takmarkað, geta orðið talsverð not af þessu fyrirtæki, sjerstaklega ef þess er stranglega gætt, að allir, sem nota sundhöllina, viðhafi hið ítrasta hreinlæti, áður en þeim er hleypt í laugina.