16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer er bæði ljúft og skylt að þakka hv. landbn. fyrir góða og skjóta afgreiðslu þessa máls, og þá ekki síst fyrir þau ummæli hv. frsm., að nefndin hafi ekki viljað tefja málið með því að fara að gera smávægilegar breytingar á frv.

Jafnframt vil jeg nota tækifærið til þess að þakka hv. landbn. fyrir gott starf og skjóta afgreiðslu allra mála, sem hún hefir fengið á þessu þingi. Hún hefir staðið fast saman um að styðja þau mál, sem landbúnaðinum mega til bjargar verða, og vona jeg, að svo verði á næstu þingum. Sjerstaklega finn jeg þó ástæðu til að beina þakklæti mínu til hv. frsm. Hann er sá eini, sem ekki hefir persónulega aðstöðu til þess að láta mál landbúnaðarins sjerstaklega til sín taka, þar sem hann er sá eini í nefndinni, sem ekki er bóndi, og stundar auk þess annan atvinnuveg. Þó hefir hann staðið í fremstu röð manna í því að styðja landbúnaðinn og gekk fram fyrir skjöldu á þinginu í fyrra með því að sýna áhuga og rjettan skilning á því þjóðþrifamáli, sem hjer er um að ræða. Þess vegna vil jeg, sem kjörinn er formaður Búnaðarfjelags Íslands og fer nú sem stendur með æðstu stjórn landbúnaðarmála, þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir hans góðu till., ekki aðeins í þessu máli, heldur og öðrum málum, sem landbúnaðinn varða og hann hefir látið, til sín taka á þessu þingi.

Um frv. það, sem hjer liggur fyrir, er vitanlegt, að ýms atriði þess geta orkað tvímælis. En aðaltakmarkið er að fara af stað og þreifa sig áfram, láta reynsluna kenna sjer, hvaða leiðir muni heppilegastar, er stundir líða.

Sem sagt, jeg vil taka undir þær óskir, sem komu fram hjá hv. frsm., að hv. deild greiði svo fyrir þessu máli, að það megi verða að lögum þegar á þessu þingi, svo að þessi starfsemi, sem allir velunnarar landbúnaðarins vænta mikils af, megi hefjast sem fyrst.