19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Jón Ólafsson):

Það er rjett heimt hjá hv. 2. þm. Skagf., að við í landbn. áttum kost á að sinna þessari till. En nefndin varð ekki sammála um það, hvort taka bæri upp till. eða ekki. Kaus hún heldur að láta deildina ráða um till.

Það er tilgangurinn með lögum þessum að sinna þessu máli á sínum tíma, en á næstu árum virðist það nægilegt verkefni að reisa þau býli, sem víða eru að leggjast í eyði vegna illra húsakynna. Við álitum það sem sagt nægilegt fyrst um sinn, en annars mætti skilja nokkru nánar milli þessara liða, því að eins og er, virðist það nokkuð loðið. Annars finst mjer, þegar fleiri búendur eru á hverri jörð, þá sje ekki svo sárnauðsynlegt, að þeir fái lánin vaxtalaust um lengri tíma; hitt er það nauðsynlegasta, að reisa hús á þeim býlum, sem eru að leggjast í eyði af húsaleysi, og þau, ásamt nýbýlunum á sínum tíma, eiga að fá best lánakjör.

Sem sagt, við höfum ekki tekið afstöðu til þessarar till., en látum hv. deild um, hvað henni sýnist rjettast að gera.