05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 1. minni hl. (Hannes Jónsson):

Fjhn. hefir haft mál þetta til athugunar og hefir klofnað um það í þrjá hluta. Jeg býst þó við, eftir þeim nál., sem fram eru komin frá tveimur nefndarhlutunum, að þeir geti fylgst nokkuð að málum.

Bæði jeg og form. nefndarinnar höfum orðið sammála um það, að ekki verði komist hjá að framlengja þessi lög. Eins og kunnugt er, voru þau upphaflega sett með það fyrir augum, að þau giltu aðeins þangað til sterlingspundið væri komið ofan í 25 kr. En eftir að það var komið niður fyrir 25 krónur, virtist þó ekki, að ríkissjóður gæti verið án þeirra tekna, sem lögin veita. Og ennþá er síður en svo útlit fyrir það, að ríkissjóður megi missa af þessum tekjum. Við viljum því í 1. minni hl. nefndarinnar leggja eindregið til, að frv. verði samþ., sökum þess að við lítum svo á, að framlengja verði þessi lög þangað til endurskoðun skattalöggjafar landsins hefir farið fram.

Það er sýnilegt, að það verður að bæta við nýjum tekjum til þess að standist nokkurn veginn á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Og við höfum ekki getað sjeð, að þau tekjuaukafrv., sem líklegt er, að komi fram hjer á þingi, verði öllu vinsælli en þessi lög þó eru, eða rjettlátari.

Jeg ætla svo ekki að hafa lengri framsögu — býst ekki við að það þurfi —, en geri ráð fyrir, að hinir partar nefndarinnar skýri frá sinni sjerstöðu í málinu.