23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Magnús Jónsson:

Jeg býst ekki við, að mikið þýði að tala um þetta mál það lítur út fyrir, að nú sje endanlega um samið og ákveðið, hvernig það eigi að fara. En jeg get þó ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, að mjer þykir kveða nokkuð undarlega við hjá háttv. þm. V.-Húnv. og hæstv. forsrh. Þeir tala um breytta aðstöðu frá því að málið var hjer síðast á ferðinni. Það er að vísu satt, að aðstaðan hefir breytst, — en hefir hún breytst til hins betra? Jeg hefi heyrt, að þau tekjuaukafrv., sem eru á ferðinni gegnum þingið, muni nema um 1 milj. kr., ef samþ. verða, en hinsvegar er nú tekjuhalli fjárl. orðinn þegar um 260 þús. kr., eins og bent hefir verið á, og óðum miðar áfram frv., sem heimila stj. að ráðast í stórkostlegan kostnað. Ef þau verða samþ., sem allar horfur eru á, hygg jeg, að þessi 1 miljón hrökkvi mjög skamt, því að það ætla jeg, að það skifti miljónum, sem talað er um að heimila stj. að leggja fram utan fjárlaga. Útkoman er þá sú, að að því leyti, sem aðstaðan hefir breytst, hefir breytingin miðað í þá átt að auka þörfina fyrir tekjuauka. Hin breytta aðstaða, sem talað er um, gefur því engan veginn tilefni til þess að ljetta af sköttum, nema síður sje.

Jeg vil ennfremur vekja athygli á þeirri stefnubreyting í skattamálum, sem hjer kemur fram. Sú stefna hefir hingað til verið ráðandi að tolla munaðarvörur, og til þeirra má telja kaffi og sykur, umfram nauðsynjar. Þó að segja megi, að kaffi og sykur sje í raun rjettri orðið að nauðsynjavörum, þá er þó hitt víst, að af báðum þessum vörum er notað langt um þarfir fram, og má þó sá hlutinn teljast óþarfavara. Næst hefir svo verið seilst í nauðsynjavörur, með almennum vörutolli, og seinast af öllu hefir verið gripið til þess ráðs að tolla það, sem talist getur nauðsynlegt til framleiðslunnar í landinu, og hafi það verið gert, hefir verið talið sjálfsagt að ljetta slíkum tollum af svo fljótt sem unt hefir verið. En hvað er svo það, sem nú er að gerast? Um leið og verið er að hækka toll á vörum, sem nauðsynlegar eru til framleiðslu í landinu, svo sem kolum og salti, telur hæstv. forsrh. (TrÞ) sig mjög fúsan til að lækka toll af kaffi og sykri. Þegar litið er á þetta, verð jeg að segja, að jeg undrast það ekki og mjer þykir líka vænt um að heyra það, að hv. þm. V.-Húnv. er ekki ljúft að ganga að frv. eins og það nú er. Enda er sú skoðun, sem hann hefir lýst, alveg í samræmi við okkar stefnu í tollamálum, að jeg ekki tali um þá stefnu, sem þessi hv. deild hefir tekið fyrir nokkrum dögum og slegið fastri. Og þegar andstæðingar stj. heita henni fylgi sínu til þess að færa stjfrv. í það horf, sem það var frá hennar hendi, og fá slík svör, þá er ekki að undra, þótt þessi orð kæmu fram á varir hv. þm. Dal. um uppfylling einhverra „paragrafa“.