23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Magnús Jónsson:

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að sjer kæmi það undarlega fyrir sjónir, að jeg skyldi vera að berjast hjer á móti mínu eigin kjördæmi, og að jeg myndi ekki þurfa að vænta margra atkvæða fyrir það, skildist mjer, ef jeg ekki fylgdi þessari breytingu á frv. Jeg veit ekki, hvað kjósendur þessa hv. þm. hafa lagt honum fyrir, þegar kosið var síðast, en jeg var ekki kosinn með það fyrir augum að samþykkja neinar breytingar á sykurtollinum, og ef hv. þm. ætlar að gefa það í skyn, að jeg muni ná fáum atkvæðum fyrir þessa frammistöðu mína, þá get jeg upplýst hv. þm. um það, að meðal þeirra manna, sem drekka kaffi og eta sykur, hefi jeg fengið fleiri atkvæði heldur en hann. Jeg veit heldur ekki til, að sú neysla sje neitt flokksmál, — eða hví berst þá hv. þm. á móti sínu kjördæmi í kolatollinum, sem aðallega er lagður á Reykjavík? Jeg vildi gjarnan vera með í því að ljetta tollum af þjóðinni, en þegar um margt er að ræða, þá tel jeg meira vert um það, að íþyngja ekki framleiðslunni heldur en að þeir tollar sjeu lækkaðir, sem lengi hafa verið í gildi og lenda á óþarfavörum. Það, sem jeg víti, er það, að fara að ljetta af því, sem hingað til hefir verið talið munaðarvara, en tollur aftur lagður á framleiðsluvörur, og jeg álít, að jeg geri alveg rjett fyrir mitt kjördæmi, þegar jeg stend á móti slíku.

Jeg er sammála hv. 1. þm. N.-M. um það, að það felst viðurkenning um það, að sykur sje ekki fullkominn óþarfi, í því, hve hægt hefir verið farið í það á undanförnum þingum að hækka þann toll. En eftir stefnu hæstv. forsrh. skildist mjer helst, að ætti að taka sykurinn alveg út úr tolllögunum og setja hann undir vörutollslögin eins og aðrar nauðsynjavörur.

Jeg tek ekki með þökkum þeirri ásökun frá hv. samþingismanni mínum (HjV), að jeg berjist á móti mínu kjördæmi. Jeg er þvert á móti að verja það með minni stefnu í skattamálum. En hv. þm. gerir það, sem óafsakanlegt væri, ef þessi kjördæmapólitík ætti að ráða, sem jeg mótmæli, þegar hann er með því að hækka tekjuskattinn.

Jeg skal ekki þræta um, hvort það er rjett, sem sumum hv. þm. hefir reiknast, að tekjuaukarnir muni nema 1300 þús. kr., en það er áreiðanlegt, að slíkir tekjuaukar, í því árferði sem nú er, horfa til stórvandræða, og hvernig það getur verið rjettmætt, þegar verið er í fleiri greinum að þyngja skattana, að þá er samtímis verið að ljetta af skatti, sem verið hefir, er mjer alls ekki ljóst.

Það gæti verið ástæða til að ræða dálítið við hæstv. forsrh., sem fór að tala um það dæmalausa ábyrgðarleysi, sem Íhaldsflokkurinn sýndi hjer. En það er dálítið skrítið að tala mikið um það nú, eftir að flokkur hæstv. ráðh. hefir samþykt flest af því, sem fulltrúar Íhaldsflokksinss í fjvn. Nd. fóru fram á. Þetta var, meira að segja, samþykt af öllum þingflokkum.

Hvað snertir lengingu þingtímans með löngum umræðum, þá held jeg, að margir eigi þar óskilið mál; jeg hefi t. d. aldrei vitað það áður, að gerður væri eldhúsdagur að fráfarandi stj. í sambandi við samþykt landsreikningsins. Það hefir verið venjan að afgreiða það mál á einum stundarfjórðungi, en nú taka menn sig til og gera eldhúsdag út af þessu tilefni. Og það eru fylgismenn hæstv. stjórnar, sem þetta gera. Mjer finst líka óviðfeldið að vera altaf að rífast um það, hve lengi þingið standi. Menn verða að vera frjálsir að því, hvað og hvernig þeir tala, á meðan þingið er kosið og látið starfa eftir almennum þingræðisreglum.

Hæstv. forsrh. sagði, að nú væri fengin trygging fyrir því, að nauðsynlegir tekjuaukar fengjust. Það væru að vísu útgjaldaheimildir á ferðinni, en stjórnin skyldi sjá um, að ekki yrði of mikið úr þeim. Þetta hljómar nokkuð einkennilega; það er eins og hæstv. ráðh. segði: Samþykkið þið bara heimildirnar, við skulum sjá um að svíkjast um það alt saman, eða við framkvæmum það ekki frekar en verkast vill.

Hæstv. forsrh. sagði, að jeg yrði að sætta mig við það, að nú væri ekki alt tekið gott og gilt, sem hingað til hefði viðgengist. Þetta eru athyglisverð orð, þegar þau koma frá hæstv. forsrh. í umr. um tollmál eins og þetta. Jeg vil þá spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort það, að ljetta tolli af tollvörum og leggja hann aftur á nauðsynjavörur framleiðslunnar, sje sú stefnubreyting, sem vænta má af hinum nýju valdhöfum?

Eða átti hæstv. ráðh. við það, að hin nýja stefna þessarar hæstv. stjórnar birtist í því, að hún ber fram frumvörp og berst svo með hnúum og hnefum á móti því, að þau sjeu samþykt óbreytt?

Jeg skal játa, að ef svo er, þá er hjer alveg um stefnubreyting að ræða frá því, sem áður tíðkaðist.