06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

29. mál, jarðræktarlög

Sveinn Ólafsson:

Jeg flyt brtt. við brtt. á þskj. 324, en henni hefir ekki enn verið útbýtt. Því er svo varið með brtt. á þskj. 324, frá hv. 1. þm. N.-M., að ef hún nær samþykki, sem jeg vona að verði, má ekki óbreytt standa 10. gr. frv. Sú grein er nefnilega skýring á 9. gr., sem brtt. á við, en getur ekki átt við eftir að gr. hefir breytst. Um aðaltillöguna vil jeg segja það, að með henni álít jeg ekki aðeins 9. gr. breytt til mikilla bóta, heldur sje sú breyting blátt áfram nauðsynleg. Ákvæði 9. gr. eru töluvert flókin og óskýr, ef óbreytt eiga að standa. Þau ákvæði, sem nú gilda, hafa valdið ágreiningi og misskilningi í sambandi við greiðslu jarðarafgjalda á ríkissjóðsjörðum. Því er svo varið, að flestar eða allar ríkissjóðsjarðir eru leigðar með jarðabótarkvöðum. Það er þegar, og var áður en jarðræktarlögin gengu í gildi, tekin upp sú regla að byggja jarðirnar þannig, að nokkur hluti afgjaldsins væri greiddur með jarðabótum. Þegar svo ákvæði jarðræktarlaganna komu til sögunnar, varð ágreiningur um það, hvort skyldujarðabætur eftir byggingarbrjefi ættu að teljast til jarðarafgjaldsgreiðslu jafnhliða viðbættum jarðabótum eða ekki. Þetta atriði verður skýrara og þarf ekki síðar að valda ágreiningi, ef samþ. er brtt. á þskj. 324 og þannig skyldujarðabæturnar undanþegnar, því að eðlilega eiga sömu jarðabætur ekki að teljast tvisvar til afgjalds.

Jeg vil taka undir það, sem háttv. flm. sagði í gær, að það virðist vera vel gert til landseta ríkissjóðs að ákveða þeim þriðjungi hærri styrk fyrir unnar jarðabætur en öðrum, sem jörðina rækta.

Ef frv. nær fram að ganga eins og það er á þskj. 309, þá sitja landsetar ríkissjóðs eins og á sjálfseign, njóta með lífstíðarábúð ávaxta jarðabótanna og greiða sjálfum sjer afgjaldið árlega með jarðabótum. Eina kvöðin er það, að dagsverkið er metið lágt, eða eftir frv. kr. 3,50. En þessar jarðabætur eru líka oftast unnar haust og vor, einmitt þegar minst annríki er og bændum verður vinnan ódýrust. Geta þetta því talist mjög sæmileg kjör tilhanda landsetum ríkisins. — Jeg vil leggja mikla áherslu á það, að brtt. á þskj. 324 verði samþykt, og einnig sú brtt., er jeg áður nefndi og mun nú afhenda hæstv. forseta skrifaða, þar sem hún er, eins og jeg áður skýrði frá, ekki komin úr prentsmiðjunni, en sú brtt. hljóðar svo: (sjá þskj. 394).