14.05.1929
Neðri deild: 68. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

101. mál, póstmál og símamál

Sigurður Eggerz:

Það er undarlegt, að ekkert nál. skuli hafa komið fram um þetta frv., nema þessar örfáu línur frá meiri hl. n., sem jeg tel rangnefni að kalla því nafni. Það er á þessa leið: Nefndin er ekki sammála um einstök atriði í frv. þessu. En að öllu athuguðu leggur þó meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. — Þetta nál. meiri hl. er ekki vel til þess fallið að upplýsa jafnflókið mál og þetta er, og það er ófært að láta engar skýringar fylgja því. Á þinginu 1923 flutti jeg frv. um samfærslu ýmsra embætta í landinu. Jeg áleit rjett að sameina þau embætti, sem hægt væri, til þess að launa þau betur og gera störfin veigameiri og lífvænlegri fyrir embættismennina, en spara þó að nokkru við starfsmannafækkunina. Þetta frv. fjekk þá lítið fylgi í þinginu. Jeg hafði einnig, þó frv. kæmi ekki fram um það, íhugað möguleikana fyrir samsteypu síma- og póstmála. En rauði þráðurinn í mínum samsteyputill. var, að þær kæmu ekki til greina fyrr en jafnóðum og embættin losnuðu. Jeg tel ófært að kasta starfsmönnum þjóðfjelagsins fyrirvaralaust út á gaddinn; sjerstaklega þar sem þeir eru svo illa launaðir, eins og allir vita. Jeg verð því að taka undir með hv. 1. þm. Skagf., að þetta er svo mikill ljóður á frv., að það má ekki fara þannig út úr þinginu.

Jeg tek undir það með hv. 2. þm. Rang., að yfirmenn símamála og póstmála ættu að heyra beint undir atvmrh. Jeg held það sje ekkert á móti því, að landssímastjóri sje látinn heyra beint undir hlutaðeigandi ráðh., og mun greiða atkv. með því. Það er óþarft að láta þau erindi og skjöl, sem koma frá landssímastjóra og póstmeistara, ganga í gegnum skrifstofur í stjórnarráðinu.

Jeg er sammála þeim anda, sem er í þessu frv., að það eigi að sameina opinber störf, þar sem hægt er að koma því við.

Í þeirri dagskrártill., sem hv. þm. Vestm. flytur, er það tekið fram, að þetta sje hægt að gera án nýrrar lagasetningar. Jeg veit það ekki með vissu og hefi ekki haft tíma til að kynna mjer það. En alt bendir þetta í þá átt, að málið þurfi ítarlegri athugunar við.

Um breyt. þær á póstgöngunum, sem felast í till. póstmálan., vil jeg sjerstaklega athuga það, sem snertir mitt kjördæmi. N. hefir komist að þeirri niðurstöðu, að það væri heppilegast að láta póstinn ganga um Laxárdal til Borðeyrar. Menn vita nú svo vel, hvernig samgöngum er háttað við Borðeyri og aðrar Húnaflóahafnir í hafísárum, að óþarft er að lýsa því; þá verður ekki treyst á póstflutning með strandferðaskipum á þær hafnir. Eina örugga leiðin með póstflutning í Dalasýslu er frá Borgarnesi. Jeg hefi heyrt eftir hæstv. atvmrh., að rjettast mundi að leggja bílfæran veg fyrst um Laxárdal og síðan yfir Bröttubrekku. En þetta er alveg öfugt. Fyrst ætti að leggja veginn um Bröttubrekku, og láta póstflutning frá Borgarnesi fara þar um. — í þessum aths., sem eru prentaðar aftan við frv., eru bendingar, sem jeg tel óheppilegar fyrir mitt kjördæmi. Þó að þetta liggi ekki fyrir til umr., þá hefi jeg viljað benda á, að þessar umtöluðu póstleiðir eru ekki heppilegar. Jeg ætlaði ekki að vera langorður, og læt því máli mínu lokið.