16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

47. mál, kosningar til Alþingis

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg hefi ekki miklu að svara nú, því þessi ræða hv. 4. landsk. var svo hógvær og ekki eins árásarkend eins og hin fyrri.

Jeg get ekki skilið í því, hvers vegna hv. þm. er svo umhugað um að draga framboð frú Bríetar Bjarnhjeðinsdóttur hjer inn í umr. Jeg átti engan þátt í því framboði; var ekki einu sinni meðmælandi. Og hvort áhrif mín voru mikil eða lítil, kemur ekki málinu við. En það er ekki hægt að afsanna, að á fundi, sem haldinn var fyrir kosningarnar, hvatti jeg konur til að fylkja sjer um listann. Þetta voru mín einu afskifti af þeim lista, því jeg var ekkert við það riðin, að listinn kom fram. Sje hv. þm. nokkur fróun í því, get jeg frætt hann á, að jeg greiddi þessum margumtalaða lista atkv. mitt, enda þótt flokksbræður mínir — íhaldsmenn — væru einnig í kjöri. Það er einhver ástæða, sem ekki liggur opin fyrir mjer, sem hv. þm. hefir til að draga svo mjög framboð frú Bríetar inn í þessar umr. En mjer „lætur svo illa að látast“ og get ekki nje vil villa á mjer heimildir í þessu máli. Konur voru á fleiri listum við þær kosningar, og hefir það sjálfsagt haft áhrif á það, hve fáir kusu listann. Þannig var kona í 1. sæti á lista hv. þm. sjálfs. Og ekki var það mín sök, þó með því væri spilt fyrir lista frú Bríetar. — Hv. þm. sagði, að það kæmi ónotalega við kaun mín að minnast á framboð frú Bríetar. Slíkum dylgjum hirði jeg ekki að svara. Ef jeg hefði verið ein af stuðningskonum listans, þá hefði mátt saka mig um, að jeg hefði veitt honum slælegt lið. En nú var jeg ekki einusinni meðmælandi, og dvaldi þar að auki ekki hjer í bænum nema lítið fram eftir sumri.

Konur hafa hingað til gert frekar lítið að því að agitera, og því ekki fengið þá æfingu í þeirri list, sem ella myndi, en hinsvegar efa jeg það ekki, að ef þær vilja beita sjer fyrir einhverju máli eða styðja eitthvert þarft mál, þá muni um fylgi þeirra og áhrif, enda eru þær helmingur kjósenda og geta því ráðið miklu um úrslit mála við kjörborðið, ef þær leggjast allar á eitt. Og jeg vona það, að hv. 4. landsk. eigi eftir að sjá það, að konur veita glögga athygli framkomu þjóðfulltrúanna á Alþingi. Það mun koma í ljós við næstu kosningar. Hv. 4. landsk. mun þá komast að raun um, að konur láta sjer fátt um þá fulltrúa, er tala fagurt og hyggja flátt og munu meta einstaka þm. eftir verðleikum þeim og drengskap, er þeir hafa sýnt á undanförnum þingum. — Sje jeg svo ekki ástæðu til að lengja umr. frekar. Jeg hefi þegar svarað síðustu skeytum hv. 4. landsk. til mín. Mun jeg ekki fara lengra út í þá sálma. Jeg hefi bent þeim hv. 4. landsk. og hæstv. dómsmrh. á það, að lesa betur kosningalögin, og þá munu þeir komast að raun um, að þar er gert ráð fyrir einum kjördegi, en ekki tveimur. Jeg skal því að lokum taka það fram, að jeg tel brtt. hæstv. dómsmrh. lítils virði. Tel jeg sjálfsagt, að hún verði feld, enda er hún ekki til annars. Læt jeg svo máli mínu lokið.