16.03.1929
Efri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2460 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Halldór Steinsson:

Jeg ætla að leyfa mjer að segja nokkur orð út af ræðu hv. 3. landsk. þm. Það er spurningin í þessu máli, hvort framvegis eigi að fylgja þeirri reglu, að ríkissjóður leggi fram helming kostnaðar við hafnargerðir eða 1/4 kostnaðar, eins og hingað til hefir verið gert. Mjer skildist á hv. 3. landsk. þm., að hann vildi í þessu tilfelli fara inn á nýja braut, af því að hjer væri sjerstaklega um sjávarútvegshöfn að ræða. En eins og bent hefir verið á, stendur viðar svo á, t. d. í Ólafsvík. Jeg vonast til þess, að allir, sem kunnugir eru fiskiveiðum, viðurkenni, að við Snæfellsnes eru einhver bestu fiskimið landsins. En þar eru hafnleysur miklar; engin höfn fyr en inni í Grundarfirði, og þó að það sje góð höfn, er erfiðleikum bundið að nota hana, vegna þess hve langt er á fiskimiðin þaðan. Með hafnarl. fyrir Ólafsvík var ríkissjóðstillagið ákveðið 1/4 hluti kostnaðar, auk þess sem ríkið ábyrgðist hina 3/5 hluta kostnaðarins. Og reynslan hefir sýnt, að það hefir verið fullerfitt að fá þetta, sem ákveðið var, hvað þá meira. Síðan hafnarl. voru samþ. eru nú 10 ár, og enn hefir aðeins lítið spor verið stigið í þá átt að tæta höfnina, þrátt fyrir það, þó að þing eftir þing hafi verið farið fram á fjárframlög og ábyrgð ríkissjóðs til hafnarmannvirkja þar. Það eina, sem gert hefir verið, er að byrjað hefir verið á garði til undirbúnings bátakvíar. Hv. 3. landsk. þm. sagði, að þetta væri byrjun að hafnargerð. Það má raunar segja svo, að því leyti sem þessi garður, sem nú er í byggingu, verður einn lítill liður í hafnargerðinni, en hinsvegar er hann aðeins gerður sem skjólgarður fyrir smærri báta.

Eins og jeg sagði áðan, hefir þessi hafnarbót fyrir Ólafsvík ekki enn fengist. Jeg hefi hvað eftir annað reynt að fá henni framgengt, en því hefir verið neitað þing eftir þing, og síðast á síðasta þingi. Þegar það þannig er sjeð fyrirfram, að þær hafnargerðir eru ekki framkvæmdar, sem ákveðnar eru með lögum þegar fyrir mörgum árum, og fjárskorti borið við, finst mjer harla einkennilegt, að menn skuli vilja fara inn á nýjar brautir og ákveða hærra ríkissjóðstillag við þær hafnargerðir, sem hjer eftir verða lögleiddar. Jeg er hlyntur þessari hafnargerð, eins og öllum öðrum hafnargerðum, en jeg vil hafa samræmi í þessum efnum sem öðrum og gera ekki einum hærra en öðrum undir höfði.