02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Eins og sjest á nál. á þskj. 213 og 221, er allshn. ekki sammála um frv. þetta. Frv. var lagt fyrir þessa hv. deild snemma á þinginu 1923 og vísað til allshn., og það var m. a. með tilliti til þessa máls, að fjölgað var mönnum í nefndinni. Allshn. hafði málið til meðferðar á allmörgum fundum, en málið varð þó eigi afgr. á því þingi. Nú hefir frv. aftur verið lagt fyrir þessa hv. deild í þingbyrjun og verið vísað til allshn. aftur. Frv. er að mestu óbreytt frá því, sem það var í fyrra, en þó var gerð á því ein allveruleg breyt. á atriði, sem valdið hafði ágreiningi í n. í fyrra. Vildu sumir nm. þá láta fella það ákvæði, sem um er að ræða, burt úr frv., og hefir það nú verið gert. Meiri hl. n. hefir því lagt til nú, að frv. verði samþ. að mestu leyti óbreytt. N. sendi frv. til lögreglustjórans og lögmannsins í Reykjavík til umsagnar, og eru brjef þeirra til n. prentuð sem þskj. í nál. meiri hl. Meiri hl. hefir talið rjett að taka aths. þeirra til greina, og því flutt nokkrar brtt. í samræmi við þær á þskj. 213. Hv. minni hl. hefir hinsvegar ekki getað fallist á frv. eins og það er, og byggir skoðun sína á því, að frv. sje í nokkrum atriðum ekki rjettlátt og illa undirbúið. Meiri hl. gat ekki fallist á þetta. Umsagnir þeirra tveggja embættismanna, er jeg gat um áður, bera heldur ekki með sjer, að þeir hafi talið frv. illa undirbúið.

Lögreglustjóri leit svo á, að frv. væri til mikilla bóta. Lögmaður benti á tvo galla á frv., og hefir meiri hl. n. flutt brtt. til að bæta úr öðrum gallanum, er hann taldi vera á frv., en hina breyt., er hann kvaðst kjósa á einu ákvæði frv., sem hann kvað valda lögmanninum í Reykjavík nokkrum örðugleikum, sá meiri hl. ekki ástæðu til að taka upp. Meiri hl. gat ekki fallist á, að annmarkar gætu verið á því að ávaxta jafnan fje búa þar, sem jafnauðvelt er að ná til lánsstofnana og í Reykjavík. Mætti frekar segja, að nokkur vandkvæði gætu verið á því úti um landið, þar sem lengra er til slíkra stofnana, en þó töldum við, að ákvæði frv. um þetta atriði væru eigi strangari en svo, að skiftaráðanda ætti að öllum jafnaði að vera innanhandar að ávaxta búafje.

Vík jeg þá að brtt. meiri hl. — 1. brtt. er við 4. gr. frv., og var öll n. sammála um hana. Er hún í því fólgin, að aftan við gr. bætist „nema því aðeins, að eignir liggi undir skemdum“.

2. brtt. er við 27. gr. og er á þá leið, að á eftir 2. málsgr. komi ný málsgr., svo hljóðandi: „Þó skal kaupmáli halda gildi, þótt skemri tími sje liðinn en tvö ár, ef hann er gerður fyrir giftingu, enda hafi eign sú, sem kaupmáli er gerður um, áður verið í eigu þess hjóna, sem sjereign öðlast samkv. kaupmálanum“ Þessi brtt. er tekin upp eftir bendingu lögreglustjórans í Reykjavík.

Þá er 3. brtt., sem er við 30. gr., um að í stað orðanna „nema allir . . .. samþykki“ komi: „nema lögmætur skiftafundur samþykki“. Í gr. er svo ákveðið, að því aðeins megi verða dráttur á skiftum búa fram yfir 18 mánuði, að allir lánardrotnar og erfingjar samþykki, en meiri hl. taldi rjettara, að í staðinn kæmi „nema lögmætur skiftafundur samþykki“, og er þar farið eftir till. lögmannsins í Reykjavík.

1. brtt. er við 37. gr., um að á eftir 1. málsgr. komi tvær nýjar málsgr., svo hljóðandi:

a. Á sama hátt og eftir sömu reglum skal auglýsa nauðasamninga, sem gerðir eru samkv. lögum nr. 19, 4. júní 1924. Ef bankar, sparisjóðir og opinberar lánsstofnanir veita skuldunautum sínum eftirgjafir á skuldum þeirra að einhverju eða öllu leyti, skulu þessar lánsstofnanir skyldar að auglýsa eftirgjafirnar í Lögbirtingablaðinu eftir sömu reglu sem um getur í fyrstu málsgr. þessarar greinar.

b. Aftan við síðustu málsgr. bætist: Auglýsingakostnaður greiðist af almannafje.

A-liður brtt. er tekinn upp eftir ósk bankaráðs Landsbanka Íslands. Taldi meiri hl. þá ósk rjettmæta.

Um b-liðinn er það að segja, að svo er ákveðið í frv., að búaskifti skuli auglýst í Lögbirtingablaðinu og skuli auglýsingakostnaður greiðast af fje búanna. N. var öll sammála um, að þetta væri óhagkvæmt, þar sem skiftaráðandi gæti eigi ávalt vitað í tæka tíð, hvaða kostnað leiddi af auglýsingunum, og gæti því eigi dregið þann kostnað frá og lokið búskiftum. Þótti því rjett að bæta b-liðnum aftan við síðustu málsgr. gr., þar sem svo er ákveðið, að kostnaður greiðist af almannafje.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. deild hafi kynt sjer frv. svo vel, að frekari framsaga hafi ekki þýðingu. Jeg þykist vita, að hv. frsm. minni hl. muni gera grein fyrir sinni skoðun, og fer eftir ræðu hans, hvort jeg tek til máls aftur. Annars munu menn þegar hafa myndað sjer fasta skoðun um málið, og hnippingar út af því eru því ástæðulausar og gagnslausar.