23.02.1929
Efri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Jón Þorláksson:

Mál það, er hjer liggur fyrir, er mjög merkilegt og þess vert, að því sje veitt hin fylsta athygli. Jeg efast ekki um, að nefnd sú, er það verður lagt fyrir, muni geta bætt úr þeim undirbúningi, er málið hefir fengið, því hann er talsvert ófullkominn frá stjórnarinnar hendi. En jeg vil leyfa mjer að leiða athygli hv. þdm. að því, að það er óviðkunnanlegt form fyrir þingið, ef þessi nýja stofnun kemst á fót, að gera það í heimildarlagaformi. Hygg jeg, að sú aðferð sje einnig mjög óvenjuleg; hitt mun venja, að löggjafarvaldið taki sjálft afstöðu til slíkra stofnana og marki aðaldrættina í fyrirkomulagi þeirra, svo sem hve marga fasta starfsmenn stofnunin þarf að hafa, laun þeirra o. fl., er að kostnaðinum lýtur. — Ennfremur vil jeg leiða athygli að því, að það reynist ekki eins vel og óska mætti, að setja á stofn sjálfstæðar stofnanir til þess að leysa af hendi einstök verkefni. Vilja slíkar stofnanir oft verða nokkuð utanveltu, og gæti jeg nefnt þess dæmi, ef þurfa þætti. Fyrir því vildi jeg leggja áherslu á, að þessar rannsóknir væru settar í samband við önnur þvílík verkefni, er það opinbera hefir nú með höndum, og að þeir, sem að þeim rannsóknum ynnu, hefðu aðra yfirstjórn en ráðuneytið. Gæti jeg þar t. d. hugsað mjer háskólann eða Búnaðarfjelag Íslands. Að lokum vil jeg vara við því, að stofnun þessi verði látin verða utanveltu við þær stofnanir, er ríkið hefir þegar sett á stofn og hafa svipuðum málum að gegna.