10.05.1929
Efri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

77. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Halldór Steinsson):

Hæstv. fjmrh. hafði þau ummæli um þetta frv., að enginn hv. þm. væri svo fróður, að hann vissi gerla, hvað hjer væri á ferðum. Að vísu má segja svo, enda munu fæstir hv. þm. vera svo gagnkunnugir um alt land, að þeir viti nákvæmlega, hversu hagar til í hinum einstöku landshlutum, þar sem farið er fram á, að lagðar verði nýjar símalínur. En hinsvegar ber á það að líta, að þm. viðkomandi kjördæma eru að jafnaði vel fróðir um staðhætti og þarfir sinna kjördæma, enda er frv. þetta á þann hátt til orðið, að einstakir þm. hafa flutt brtt., miðaðar við þarfir síns kjördæmis. Hæstv. fjmrh. talaði um, að frv. þetta kæmi ef til vill í bága við einkasímafrv. Það kann að vera, en jeg vil þó efa, að það væri mikill skaði skeður, því að þar sem hentugra er að leggja síma heldur en einkasíma, þá er auðvitað sjálfsagt að kjósa þann kostinn heldur. Að öðru leyti fer slíkt algerlega eftir staðháttum á hverjum stað.

Jeg skal nú játa það, að frv. þessu liggur ekki mjög á, en á hinn bóginn sje jeg enga ástæðu til að slá því á frest, einkum að því athuguðu, að frv. er bygt á kunnugleika einstakra þm. og á sjerfræðilegri þekkingu landssímastjóra. Mjer skildist hæstv. fjmrh. leggja mikið upp úr því, að bygt væri á áliti landssímastjóra í þessu máli, en það er nú einmitt það, sem gert hefir verið.

Jeg get með engu móti felt mig við þá till. hæstv. ráðh., að vísa málinu til stj., en vil leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fram hafa komið.