15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2682 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að óhentugt væri að taka lánið til 40 ára, vegna þess, að sumar þær framkvæmdir, sem nota ætti fjeð til, væru þannig, að fjeð gæti ekki staðið svo langan tíma í fyrirtækinu. Það er rjett, að þetta er dálítið óhentugt, en jeg álít, að það yrði að reyna að komast að þeim kjörum, að hægt væri að borga inn í lánið eftir því sem til fjelli á hverjum tíma, auk afborgana. Veit jeg ekki, hvort þetta tekst, en það verður reynt. Jeg hefi litið svo á um Byggingar- og landnámssjóð, að hann væri stofnaður svipað og veðdeild, og starf hans þess vegna tímabundið. En sje það ekki meiningin, verður vitanlega að ætla upphæð í fjárl. til afborgana á hverju ári.

Mjer skildist hv. þm. Barð. sakna þess, að fjeð yrði ekki notað til brúargerða. Jeg hefi ekki slegið neinu föstu um það, hvort fjeð verður notað til þess eða ekki. En jeg lít svo á, að ef fjárhagurinn er sæmilegur, þá sje rjett, að ríkissjóðurinn, beri baggann af slíkum framkvæmdum hvert ár. Og þó jeg viðurkenni, að brúargerðir sjeu nauðsynlegar, þá held jeg, að bygging þeirra verði að miða við getu ríkissjóðs á hverjum tíma.