23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

24. mál, héraðsskólar

Jörundur Brynjólfsson:

Það er tilgangslítið að vera að karpa um þetta mál, en úr því að umr. hafa hafist, og ekki síður vegna þess, að mjer hefir verið borið á brýn, að jeg hafi talað litað um málið, vil jeg ekki láta vera að hreyfa nokkrum andmælum.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að jeg hefði talað litað um málið. Því vil jeg andmæla. Hann hefði frekar getað sagt, að jeg hefði ekki sagt nóg, t. d. um frammistöðu hans fyrr og síðar. (GunnS: Hún hefir altaf verið sú sama). Það, sem jeg sagði, er rjett, og ekki orði hallað, en hitt er satt, að jeg kom ekki inn á alt, sem hægt hefði verið að minnast á, enda hefði það orðið langur lestur, og er auk þess fjarri mjer að vilja rifja það alt upp.

Mjer virðist, að þeir þrír hv. þm., sem risið hafa upp í röð til þess að færa fram aðfinslur út af því, að skólinn hafi verið settur á stað, sem leiddi til sundrungar, haldi, að til engrar sundrungar hefði leitt, ef skólinn hefði verið reistur að Árbæ samkv. till. nefndarinnar. (EJ: Það hefi jeg aldrei sagt). Hinir tveir þm. sögðu það, og hv. 1. þm. Rang. óbeint. Jeg skal ekkert um það dæma, hvort ágreiningurinn hefði orðið meiri eða minni en hann er nú, ef skólinn hefði verið reistur að Árbæ, en það er víst, að einhver hefði hann orðið, og það töluverður. Þetta vita allir, sem til þessa máls þekkja. Auk þess veit jeg það með vissu, að þeim, sem mest hafa látið sig skólamálin skifta, var það þvert um geð að hafa skólann að Árbæ, — ekki vegna þess, að staðurinn væri ekki að mörgu leyti góður, heldur vegna ýmissa annara agnúa, svo sem þeirra, að byggja þyrfti rafstöð til að hita skólann og lýsa, því að þetta er á „köldum“ stað og engum jarðhita til að dreifa. Slík rafstöð var gert ráð fyrir að mundi kosta um 40 þús. kr., og er ekki nema eðlilegt, að flestum hrjósi hugur við þeirri upphæð. Þegar á þetta er litið, er ekki víst, að orðið hefði neinn sparnaður að því að setja skólann þarna. Það er hjer um bil óhætt að fullyrða það, að rekstrarkostnaður tveggja skóla á „heitum“ stað er ekki meiri en rekstrarkostnaður eins skóla á „köldum“ stað. Til þess að sannfærast um þetta, þurfa menn ekki annað en að kynna sjer, hvað það kostar að hita þá skóla, sem fyrir eru, t. d. Hvanneyrarskólann. Það er býsna mikið. En í rekstri skóla á „heitum“ stað sparast mjög mikið í þessu efni.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að vegalengdin skifti engu máli, og er slíkt von um svo glöggan mann. Hitt er aðalatriðið, að skólinn sje vel settur, bæði í nútíð og framtíð. Þeir menn, sem borið hafa skólamálin sjerstaklega fyrir brjósti, eru fleiri Í Árnessýslu en í Rangárvallasýslu. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vanþakki Rangæingum þeirra gerðir; þeir hafa haft áhuga fyrir málinu, en það hefir meira borið á áhuga Árnesinga. Það hefir engum dulist, að reisa ætti skólann á „heitum“ stað, en um hitt greindi menn á, hvort hann ætti að vera að Laugarvatni eða á Hveraheiði í Hrunamannahreppi, og það var að mörgu leyti ekki nema eðlilegt. En úr því, sem komið er, þarf að vinna að því að jafna ágreininginn og hlúa að skólanum þar, sem hann er kominn. Yfir skólastaðnum þarf enginn að kvarta og þeim, sem búa austan Þjórsár, má á sama standa, hvort skólinn er þarna eða á hinum staðnum. Vegalengdin skiftir þar engu máli.

Hv. 2. þm. G.-K. gat þess, að það mundi hafa vakað fyrir hjeraðsbúum að hafa skólann sem næst miðju hjeraðanna. Jeg kannast við þetta, en mjer þótti verst, að hann skyldi telja þetta aðalatriði málsins, að þessu yrði svo hagað, því að það er hreinasti misskilningur og næsta undarlegt, að hann skuli koma fram frá svo mentuðum manni sem þessi hv. þm. er. Þetta er auðvitað aukaatriði. Höfuðatriðið er það, að staðurinn sje góður og að kenslan við skólann komi að fullum notum. Og svo auðvitað það, að þeir, sem kenna við skólann, sjeu starfinu vaxnir. Frá því jeg fór fyrst að hafa afskifti af þessum skólamálum, ljet jeg mig það miklu skifta að fá þann mann við skólann, sjera Kjartan Helgason prófast í Hruna, sem jeg þekti að öllu góðu og hafði sjerstaklega álit á. Sá maður tók ekki við skólanum, — því miður. En jeg vona, að þeir menn, sem nú starfa við skólann, reynist vel, og eftir því orðspori, sem af þeim gengur í vetur, er þeim borin vel sagan.

Jeg minnist þess, að Rangárvallasýsla var þríklofin, þegar þar voru greidd atkv. um skólamálin. Mikill hluti sýslunnar vildi engan skóla, nokkrir vildu sjerskóla fyrir sýsluna eina, en aðrir vildu samvinnu við Árnesinga, hvort sem skólinn yrði reistur vestan eða austan Þjórsár. Slík atkvgr. hefir aldrei farið fram í Árnessýslu, en jeg veit, að hún hefði orðið alt öðruvísi, og þá hefði skoðanamunurinn komið greinilega fram.

Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál; aðeins að drepa á eitt enn. Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að það væri skylda allra þm. að fylkja sjer gegn allri fjesóun, hvort heldur sem væri í þessu máli eða öðru. Jeg tek undir það. En jeg held, að þessi hv. þm. hefði komist að annari niðurstöðu Í þessu máli en hann gerði, ef hann hefði athugað, hvílíkt óhagræði það væri fyrir ríkið, ef skólinn hefði verið reistur á „köldum“ stað.