04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Lárus Helgason:

Eins og nál. ber með sjer, er þar tekið fram, að hv. 2. þm. Eyf. (BSt) og jeg höfum óbundin atkvæði um 2. brtt. n. Jeg verð að segja, að eftir að hafa hlustað á umræðurnar, sje jeg ekki eftir því, að jeg batt mig ekki um þessa brtt. Mjer var að vísu frá upphafi ljóst, að ekki var eðlilegt að blanda saman sjávarútvegi og landbúnaði í þessu efni. Tilgangur frv. er eingöngu sá, að styðja að landbúnaði og stuðla að því, að þeir, sem hann stunda, geti fengið lán með betri kjörum en áður, þar sem það er vitanlegt, að lán til landbúnaðarins eru miklu hættuminni gagnvart lánsstofnununum. Mjer er ekki skiljanlegt, hvernig á þessu ofurkappi stendur hjá þeim, sem telja það svo mikla nauðsyn að koma smábátaútveginum inn í þessa stofnun. Það virðist vera miklu skynsamlegra að taka heldur þá leið, að vinna sjerstaklega að lánsstofnun handa smábátaútveginum, eins og byrjað er á af hálfu sjútvn. Það skal ekki standa á mjer að greiða atkvæði með því. En mjer finst rjett að halda þessum tveim atvinnuvegum aðskildum, og býst jeg því við að greiða ekki atkvæði með 2. brtt., heldur halda mjer við tilgang frv.

Mjer finst óþarft að deila meira um þetta. Hæstv. atvmrh. bauð fram hönd sína hjer í hv. deild til þess að styðja að smábátaútveginum, og jeg er viss um, að rjett er og sjálfsagt af okkur öllum að taka saman höndum um það. En hvað þýðir að vera að blanda þessum tveim atvinnugreinum saman? Sjútvn. vill stofna vísi til þess að hlynna að smábátaútveginum. Hví ekki heldur að hafa þann vísi svo stóran, að ekki þurfi að seilast inn í landbúnaðarbankann ?