18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2853 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

122. mál, Menningarsjóður

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. um Menningarsjóð er komið til okkar aftur frá hv. Nd., og hefir nú verið fært aftur í það form, sem það var fyrst í hjer í deildinni. — Jeg fyrir mitt leyti tel það ekki neitt til bóta, þótt það sje nú komið í sama horf og jeg flutti það í upphaflega. Jeg teldi það ekki nema sanngjarnt og að það gæti ekki verið málinu til spjalla að bera val bóka undir Mentamálaráðið, en þar sem það nú er komið aftur í sama horf, og auk þess eins og hugsað var með frv. í fyrra, þá vildi jeg mæla með, að það yrði samþ., því að jeg teldi það eðlilegra fyrirkomulag, úr því að stj. útgáfudeildar á að sjá um útgáfuna, að hún ráði líka vali bóka, eins og þessi hv. deild var búin að fallast á. Og jeg vil líka benda á það, að þessi breyt., sem komst inn í frv. í fyrra, að Mentamálaráðið skuli ráða vali bóka, komst inn í ógáti. Það er alveg skýrt tekið fram, eins og frv. lá fyrir þinginu í fyrra, — þar segir svo í athugasemdunum við frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Hjer er gert ráð fyrir, að stjórn útgáfudeildarinnar hafi óbundnar hendur um bókavalið, geti gefið út gamlar og nýjar íslenskar bækur og þýddar bækur, fræðirit og skáldskap. Stjórn útgáfufjelagsins má ekki setja önnur takmörk en að hún velji verulega góðar bækur og gefi þær út vel og smekklega“.

Hjer er gert ráð fyrir, að stj. útgáfudeildar hafi óbundnar hendur um bókavalið. Þar er alveg skýrt tekið fram, að hún eigi að ráða valinu, og eftir þeirri gr., sem hjer er um að tala, er þetta auðsjeð líka. Reyndar er frágangurinn á 5. gr. í fyrra ekki eins góður og skyldi, en aths. taka af allan vafa um þetta, og orðalagið í 5. gr. stríðir ekki á móti. Ef svo eru athugaðar þær brtt., sem fluttar voru við frv., bæði í Ed. á þskj. 256 og eins þær, sem fluttar voru í Nd. á þskj. 620, þá sjest, að engin brtt. hefir verið flutt í þá átt að gera breyt. á þessu. Það hefir aðeins komist á sú breyt., sem getur verið nokkuð í sambandi við það, að upphaflega var lagt til, að stjórnarnefndin hjeti mentamálanefnd, en eftir till. hv. Nd. var hún kölluð mentamálaráð. Þetta virðist þess vegna alveg hafa verið ljóst, og þessi breyt. hafa slæðst inn í ógáti við prentun á frv., að Mentamálaráðið skuli ráða vali bóka.

Jeg vil þess vegna eindregið mælast til þess, að hv. deild leyfi frv. að ganga fram, og það því fremur, sem Mentamálaráðið hefir mælt með þessu og sömuleiðis stjórn útgáfudeildar. Auk þess er þegar farið að vinna á þessum grundvelli, — enda þótt jeg hefði ekkert haft á móti því, að þetta frv. kæmist í gegn eins og þessi hv. deild afgreiddi málið.