18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2859 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

122. mál, Menningarsjóður

Ingibjörg H. Bjarnason:

Mjer er ekki kunnugt um, að það hafi verið nokkur meiri hl. fyrir því, að Mentamálaráðið sem slíkt afsalaði sjer allri íhlutun um bókaútgáfuna. Hinsvegar hefir formaður Mentamálaráðsins getið þess, að í 5. gr. laga um Menningarsjóð sjeu ákvæði um afskifti Mentamálaráðs af bókaútgáfu Menningarsjóðs komin inn af vangá.

Það er enganveginn sambærilegt, að tala um náttúrufræðirit og alþýðubækur í senn. Það er beinlínis skoplegt að tala um vísindaleg náttúrufræðirit og almenna bókaútgáfu sem skylda hluti. Nei, þetta er tvent ólíkt. Til annars þarf vísindalega sjermentun í náttúrufræði, en til þess að velja bækur fyrir alþýðu þarf einungis greinda og gáfaða menn, án þess að nokkra sjerstaka sjerþekking þurfi. Hjer er verið að ákveða, hversu megi auka bókakost þjóðarinnar. Get jeg ekki sjeð, að afskifti Mentamálaráðs rýri að nokkru leyti rjett bókaútgáfunefndar Menningarsjóðs. Jeg get heldur ekki skilið, að íhlutun Mentamálaráðs hefði orðið misbeitt. Jeg geri ráð fyrir, að um bókavalið hefðu einungis orðið vinsamlegar umr. milli Mentamálaráðs og bókaútgáfunefndar, og ætíð náðst samkomulag um það, hvaða bækur væru heppilega valdar. Og enginn hefði verið líklegri til samkomulags um þá hluti en einmitt formaður ráðsins.