20.02.1929
Efri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2880 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

12. mál, loftferðir

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Með því að hæstv. forsrh. er bundinn við frumvörp, sem hann er að leggja fyrir Nd., en hinsvegar er nauðsynlegt, að hv. Ed. geti fengið starfsefni, þá ætla jeg að segja fáein orð um sum af þeim frv. frá atvinnumáladeildinni, sem fyrir liggja.

Þetta frv. um flugferðir er samið af Flugfjelagi Íslands, sem stofnað var í fyrra, eins og menn vita, og átti mikinn þátt í þeim tilraunum um flugferðir, sem hjer voru gerðar síðastl. sumar.

Frv. er náttúrlega sniðið eftir svipuðum lögum í öðrum löndum, þar sem flugferðir eru komnar í fast horf, og því fylgir grg. frá stj. Flugfjelagsins, svo að jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það. Aðeins vænti jeg þess, að frv. verði vísað til samgmn., að lokinni umr.