03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og sjá má á þskj. 224, hefir n. gert allítarlega grein fyrir till. sínum í þessu máli. Sjútvn. telur nauðsynlegt að nema burt farartálma af siglingaleiðum. Hún er einnig sammála um, hverjir aðilar bera skuli þann kostnað. Og hún telur eðlilegt, að viðkomandi hafnarsjóður beri töluverðan hluta af kostnaði. En n. þykir varhugavert, að till. hv. Ed. um skiftingu kostnaðarins sjeu látnar standa óbreyttar. Telur hún of hátt farið að gera hafnarsjóði að greiða til þess helming árstekna sinna. Slíkt telur n., að margir hafnarsjóðir mundu ekki þola vegna annara framkvæmda og kostnaðar. Aftur á móti þótti n. rjett að hækka nokkuð þá föstu upphæð, sem sjóðunum er skylt að verja til að rýma burt farartálma, eða úr 300 kr. upp í 500 kr. Mundi sú upphæð nægja til að nema burt minni háttar farartálma. En þegar burtnám þeirra fara að skifta þúsundum, eða jafnvel tugum þúsunda króna, verður hafnarsjóðunum ofurefli að kosta eins miklu til og hv. Ed. vildi. Till. n. er því að hækka lágmarksupphæðina, en lækka tillag hafnarsjóðs úr árstekjum niður í 14 árstekna. Lengra taldi n. ekki fært að fara um tillög hafnarsjóða, ef hagur þeirra ætti að vera nokkurnveginn trygður. Skal jeg svo ekki orðlengja frekar um þetta að sinni.