15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2937 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

88. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, á að bæta úr aðstöðu þeirra manna, sem búa fjarri hafnarstað, að því er snertir flutningskostnað á tilbúnum áburði. Samkv. lögum um einkasölu á áburði, sem sett voru á síðasta þingi, voru notendum áburðarins veitt þau vildarkjör, að fá hann að frádregnum flutningsgjöldum á alla hafnarstaði hjer á landi. En þetta frv. gerir ráð fyrir, að veitt verði ívilnun á flutningsgjöldum frá kauptúnum út í sveitirnar, og á það aðeins að gilda til ársloka 1930. Þetta er að vísu ekkert stórmál, en landbn. áleit sanngjarnt, að þeir, sem ættu erfiðasta og lengsta flutninga, fengju þennan styrk í rjettu hlutfalli við það, sem þeir yrðu að kosta meiru til flutninga en þeir, sem búa við kauptúnin.

N. fanst þó ekki rjett að samþ. frv. óbreytt. Samkv. frv. á að miða styrkinn við tvent, verðupphæð þess áburðar, sem hlutaðeigandi búnaðarfjelag hefir fengið næstliðið ár, og flutningskostnað á áburðinum frá útlöndum heim til hvers fjelags. En ekki er tiltekið, að hve miklu leyti miðað er við hvorn liðinn fyrir sig. N. fanst eðlilegast að ákveða það skýrar og taldi rjettast að miða ívilnunina við flutningskostnaðinn. Sömuleiðis taldi hún rjett, að ef bæjarfjelögin keyptu áburð, þá gætu þau fengið þennan styrk eins og hreppsfjelögin.

Jeg skal taka það fram, að það vakti fyrir n., að búnaðarfjelögum og sveitarfjelögum yrði borgaður út þessi styrkur í einu lagi, og þeim síðan falið að skifta honum á milli notenda áburðarins eftir rjettri tiltölu. Það er þægilegra fyrir stj. að þurfa ekki að borga út til hvers einstaklings. Ennfremur er gert ráð fyrir því, að stj. setji nánari reglur um úthlutunina, ef hún telur ástæðu til þess. Vera má, að það orki tvímælis, hvort þægilegra sje að fá þessa ívilnun greidda strax, og dregna frá áburðarverðinu, eða að hún verði útborguð eftir á. En frv. gerir ráð fyrir, að notendur áburðarins borgi hann fullu verði, að meðtöldum flutningskostnaði, en að ívilnunin greiðist þeim á eftir; en það er ekki eins þægilegt.

N. mælir með því, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hún leggur til.