02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg hefi litlu við mína fyrri ræðu að bæta, en mjer láðist að geta þess, að við 8. gr. frv. er brtt. í tveim stafliðum, a. og b. Jeg talaði einungis um a-liðinn, en gleymdi b-liðnum, sem er þess efnis, að verksmiðjan sje undanþegin aukaútsvari, tekju- og eignarskatti. N. leit svo á, að þegar arðinum væri skift upp, þá væri rjett að mæla svo fyrir, að ekki mætti leggja aukaútsvar eða aðra skatta á stofnunina.

Út af brtt. hv. þm. Snæf. hefi jeg ekki margt að segja. Hæstv. forsrh. benti á það atriði, sem gefur Siglufirði fullan rjett á hlutdeild í stj. verksmiðjunnar, og jeg lít svo á, að ef Siglufjörður verður sviftur allri íhlutun, þá sje gengið þar framhjá rjettum aðila. Því var hreyft áðan að fara þá leið að fjölga mönnum í stj., og hefi jeg eiginlega ekkert við það að athuga. Hina leiðina, að það megi alveg eins kippa í burtu síldareinkasölunni eins og Siglufjarðarkaupstað, álít jeg með öllu ófæra. Ef síldareinkasalan heldur áfram, liggur það í augum uppi, að náin samvinna verður að vera á milli hennar og bræðsluverksmiðjunnar. Jeg verð því að líta svo á, að þó einkasalan eigi ef til vill ekki beinna hagsmuna að gæta, þá sje hún svo stór aðili vegna samvinnunnar, að hún hafi fullan rjett á að fá einn mann í stj. Jeg hefi alls ekkert við það að athuga, þó að mönnum sje fjölgað í stj., en jeg get ekki greitt atkv. með því að svifta síldareinkasöluna íhlutunarrjetti, þar sem hún mun komast í svo náið samband og samvinnu við verksmiðjuna.

Jeg vil svo benda á einn galla á brtt. hv. þm. Snæf., og hann er sá, að nú er ekki til sá aðili, sem hann vill láta fá rjett til þess að skipa einn mann í stj. Nú væri því ekki hægt að skipa stj. að fullu, því að þessi aðili, viðskiftamennirnir, er ekki til ennþá. Eftir eitt ár er kominn sá grundvöllur, sem mætti byggja á þetta skipulag, og þá fyrst gæti komið til mála að samþ. svona till. Jeg held því, að rjettast væri, að þessi brtt. hv. þm. Snæf. kæmi ekki til atkv., en frv. væri samþ. eins og það liggur fyrir með brtt. n.