01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3008 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg ætla fyrst að svara hv. 1. þm. Reykv. Jeg hefi áður getið um, að ef hægt er að fá það fyrirkomulag, sem hann stingur upp á, vil jeg það helst, en jeg vil benda á, að ef uppástungur mínar til samkomulags ná fram að ganga, er þeim viðskiftavinum verslunarinnar, sem til þessa tíma hafa skift við hana, skaðlaust, þó að endanlegt skipulag dragist. Aðalatriðið er, að viðskiftamenn eignist það, sem haldið er eftir af andvirði vörunnar umfram þörfina, í rjettu hlutfalli við viðskifti sín við verslunina.

Jeg ætla ekki að svara hæstv. ráðh. miklu. Jeg get þó ekki komist hjá að segja það enn, að mjer er alveg óskiljanlegt, af hverju hann lætur sem hann skilji ekki aðstöðumun okkar til þessara mála frá því, sem var í fyrra. íhaldsm. beittu sjer fyrir ákveðinni stefnu í fyrra. Og á milli þinga hafa þeir bent á, að mikil hætta grúfði yfir ríkissjóði í sambandi við þetta mál. En hvers vegna? Af því að hæstv. ráðh. fjekst ekki til þess í fyrra að gefa yfirlýsingu um, hvernig hann ætlaði að haga starfrækslu þessa fyrirtækis. Hitt veit hæstv. ráðh., að í fyrra ætluðumst við til, að fyrirtækið væri rekið fyrir ríkissjóðsreikning á venjulegum kaupmenskugrundvelli. Hæstv. ráðh. var margspurður, en ekki tókst að fá svar. Ein yfirlýsingin var sú, að ef verksmiðjan væri seld, mundi hann ekki selja hana öðrum en þeim, sem ræki hana á samvinnugrundvelli. En hæstv. ráðh. gaf ekkert loforð í því tilfelli, að verksmiðjan yrði ekki seld. Nú er aftur á móti lagt inn á þá braut, sem firrir ríkissjóð þeirri hættu, sem við óttuðumst mest. Þegar það er búið, segjum við: „Við sjáum ekki ástæðu til að okra á framleiðendunum“. Hæstv. ráðh. lýsti yfir því, að það væri ekki heldur tilgangur sinn. Hann getur þó ekki verið að seilast eftir mótstöðu okkar. Frv. ætlast til, að greiða megi framleiðendum alt að 70% af andvirðinu, en með því að halda eftir 30%, tel jeg, að girt sje fyrir hámark áhættunnar.

Jeg vil ennfremur benda á — og jeg legg ríka áherslu á það —, að það er rjett, sem jeg gat um í frumræðu minni, að ef skilmálar fyrir verslun við verksmiðjuna eru gerðir eins óaðgengilegir og frv. fer fram á, ef lagður er í það skilningur hv. 1. þm. S.-M., er þar með verksmiðjunni lokað. Enginn skiftir við hana upp á þá skilmála.

Jeg ætla að víkja örfáum orðum að hv. 4. þm. Reykv. Hann tilfærði rök fyrir nauðsyn þess, að síldareinkasalan ætti mann í stj. fyrirtækisins og ljet alveg eins og hann hefði ekki heyrt ræðu mína í fyrradag, þar sem jeg tilfærði ákveðin rök fyrir því, að einkasalan þyrfti þar engan mann að hafa. Rök mín voru einmitt svar við ræðu hans, þó að hún kæmi á eftir. Jeg gat svarað þessu, af því að jeg hafði fylgst með gangi málsins í Ed. og lesið ræður hv. flokksbræðra hans þar. Það er hættulegur misskilningur, ef hv. þm. heldur, að síldareinkasölunni sjeu opnar dyr fyrir alla sína viðskiftamenn í verksmiðjuna, hvenær sem mikið berst að af síld. Það er nauðsynlegt að marka skýrar línur um það, að samningsbundnir viðskiftamenn gangi fyrir hlaupaviðskiftamönnum, þegar mikið er af síld.

En jafnvel þó að þessu væri ekki svona háttað, á sá stjórnarmaður, er ráðh. skipar, að tryggja eðlilegt samband einkasölunnar og bræðslustöðvarinnar. Önnur eða meiri nauðsyn er ekki þarna fyrir hendi, og síst ástæða til að fá einkasölunni þetta vald til kosningar stjórnarnefndarmanns, ef á að úthýsa öðrum rjettum aðilja, þar sem viðskiftamennirnir eru.

í ræðu hv. þm. kendi allmikils misskilnings á því, hvaða skilning jeg legði í 4. gr. laganna, en jeg legg ekki svo mikið upp úr þeim misskilningi, að jeg vilji verja miklum tíma til að leiðrjetta hann. Aðeins vil jeg benda á það, að mínir útreikningar hníga að því, að þau 10%, sem tekin eru af framleiðendum umfram það, sem nauðsyn ber til, samsvöruðu álagi, sem næmi 3–5 þúsundum á vjelbát og 10–12 þús. á togara.

Hv. þm. nefndi tölur, sem áttu að vera meðalveiði skipa. Þær voru að vísu rjettar eftir hagtíðindunum, en villandi samt, af því að þær miðast við meðalveiði, á meðan menn kunnu minna til veiða og veiddu aðallega til söltunar, en eins og hv. þm. veit, þá má áætla afla þess skips, sem aflar eingöngu til bræðslu, tvöfaldan á móti afla þess skips, er veiðir síld til söltunar. Hv. þm. tilgreindi reynslu Norðmanna um það, hversu mikil olía og mjöl fengist úr einu máli af síld. Þær tölur eru mjög villandi að því er snertir íslenska síld, eins og reynslan sýnir. önnur talan, sem hann nefndi, er of há, en hin of lág. Hv. þm. misskilur eðli málsins, þegar hann er að tala um, að verðmæti síldarinnar tvöfaldist við slíka vinslu. Það er t. d. ekki verðmæti fiskjarins sjálfs, sem eykst, þó að söluverð á fullverkuðum fiski sje mun meira en á honum óverkuðum. Mismunur söluverðs á fullþurkuðum fiski og saltfiski nemur því, er svarar vinnulaunum og öðrum verkunarkostnaði, eða sem næst því. Eins er það um söluverð á síldarafurðum, ef það er borið saman við innkaupsverð verksmiðjanna á síldinni; þá verður að draga frá söluverðinu allan vinslukostnað á síldinni, umbúðir, flutningsgjöld o. fl. Hitt er rjett, að það er ætlast til, að útgerðarmenn hafi hagnað af því að skifta við verksmiðjuna. Hv. þm. taldi, að sá hagnaður væri eins mikill og sá baggi, sem á þá væri lagður samkv. þessu frv. með greiðslum, sem þeim er ætlað að inna af hendi til ýmsra sjóða. Þetta er rjett. En hvaða hagnað hafa þeir af þessum viðskiftum, ef hann er tekinn af þeim með gjöldum til ríkissjóðs og verksmiðjunnar, þannig að ágóðinn og útgjöldin vega hvort á móti öðru? Þá má ætla; að útgerðarmenn skifti heldur við aðrar verksmiðjur, þar sem þeir fá andvirði síldarinnar greitt út í hönd, heldur en við þessa verksmiðju, þar sem aðeins er gert ráð fyrir 70% útborgun samkv. þessum lögum.

Að endingu vil jeg víkja fáum orðum að hv. frsm. meiri hl. Hann taldi, að útgerðarmönnum væri ekki nauðsyn að hafa mann í stj. fyrirtækisins, vegna þess að þeir þyrftu varla að efast um, að reikningshald og bókfærsla yrði rjett hjá stj. verksmiðjunnar.

Mig rekur í rogastans; jeg er alveg hissa á að heyra slík rök frá svo greindum manni sem hv. frsm. er. Því það er eins og hann álíti, að útgerðarmenn varði ekki um annað en bókfærsluna. Hann virðist halda, að þá varði ekki um innkaup til verksmiðjunnar eða söluverð síldarinnar á erlendum markaði. Hv. frsm. ætti þó að vita, að afkoma útgerðarmanna á þessu sviði er mikið undir því komin, hvernig stj. verksmiðjunnar fara þessi störf úr hendi og hvernig hún hagnýtir þá möguleika, sem heimsmarkaðurinn býður. Jeg veit ekki, hverja varðar um þetta, ef það eru ekki einmitt eigendur þeirrar vöru, sem verksmiðjan hefir til meðferðar og sölu. Jeg gæti með miklu meiri rjetti sagt, að ríkið varðaði ekkert um rekstur verksmiðjunnar, því ríkið á þar aðeins þá hagsmuni í veði, að vextir og afborganir fáist af stofnkostnaðinum. Ríkið hefir miklu minni hagsmuna að gæta heldur en framleiðendur við rekstur verksmiðjunnar. Það eiga engir eins mikið á hættu og einmitt framleiðendur. Þess vegna er ekki hlustandi á slík rök hjá hv. frsm. meiri hl., og gegnir furðu, að hann skuli hafa borið þau fram hjer í deildinni. Aðalábyrgð og vanda af þessu máli hafa þeir, sem vöruna eiga og leggja hana inn til vinslu í verksmiðjunni. Ríkið á ekki annað á hættu en að fá greidda vexti og afborganir af stofnfje því, er það leggur í fyrirtækið. Og ríkinu er þetta trygt, vegna þess að það hefir forgangskröfur til þess hluta af verði vörunnar, sem ekki er útborgaður. En sá aðili, sem ekki er tryggur gegn áhættunni, eru útgerðarmennirnir. Á þeim hvílir sú endanlega áhætta af rekstrinum, þeir verða að ná hinum síðasta eyri, sem hægt er að hafa upp úr vörunni.

Það er geysilegur misskilningur, að ríkið hafi áhættuna; áhætta þess er sama og engin. Hv. frsm. meiri hl. bætti við áhættu af hafís, en hann gæti eins vel nefnt áhættu vegna styrjalda, eldgosa og svarta dauða!

Að lokum virtist hv. frsm. ekki enn vera búinn að átta sig á 4. gr. frv. Hann telur, að þau 5%, sem nefnd eru í 2., 3. og 4. lið, sjeu af söluverði afurðanna. Eða er þetta ekki rjett frá skýrt hjá mjer? (SvÓ: Það er best að láta lögfræðingana skýra það). Það þarf ekki til. í sjálfu frv. stendur: 2. liður, 5% afborgun af stofnkostnað síldarstöðvarinnar. 3. liður, 5% fyrningargjald af húsum, mannvirkjum vjelum og áhöldum. 4. liður, 5 % gjald í varasjóð. Samt sem áður segir hv. frsm.: „í 4. gr. frv. er ákveðið, að þessi gjöld skuli tekin af söluverði aflans“. Þessi skýring hv. frsm. meiri hl. sýnir, að hann hefir ekki lesið frv.; annars hefði honum ekki fatast svo, jafnglöggum og skilríkum manni. En hv. frsm. gaf sjer ekki tíma til að kynna sjer málið í n., og þá er ekki von, að vel fari, og ekki nema mátulegt að hv. frsm. þiggi nú laun starfsins með því að gerast ber að því að þekkja ekki grundvallaratriði málsins.