01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3027 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Guðmundsson:

Jeg lagði nokkrar fyrirspurnir fyrir hæstv. atv.mrh. um þetta mál á þinginu í fyrra, sem hann þá skoraðist undan að svara. Jeg vil því endurtaka þessar spurningar og vona, að hæstv. ráðh. láti svo lítið að svara þeim, því þær skifta eigi alllitlu í sambandi við það mál, sem nú er til umr. hjer í hv. deild. Fyrst vil jeg spyrja hann, hvað hann hugsi sjer að halda langt áfram á þessari — ef svo mætti kalla — síldarverksmiðjubraut? (Forsrh: Eina verksmiðju á Siglufirði og ekki meira). Það er gott að heyra þetta svar af munni hæstv. ráðh. En í frv. stendur „stöðvar eða stöð“, svo að af því orðalagi mætti ætla, að ætlunin væri að halda lengra í þessa átt. Því næst vil jeg spyrja hæstv. ráðh. um hvað líði undirbúningi undir bygging þessarar verksmiðju og hvort hún muni geta tekið til starfa á þessu ári. (Forsrh.; Það mun hún ekki geta). Nú, ef svo er, þá á jeg bágt með að skilja, hvers vegna frv. þessu liggur svo á að ná afgreiðslu á þessu þingi. Mjer sýnist þá nóg að taka það til endanlegrar meðferðar á næsta þingi. Mjer skilst því óþarft að eyða tíma þessa þings til þess, því að væntanlega verður næsta þing búið fyrir síldartímann 1930. Jeg gekk út frá, eftir viðhorfi málsins á Alþingi í fyrra, að undinn yrði bráður bugur að því að byggja þessa verksmiðju, helst svo að hún gæti tekið til starfa nú í sumar. Jeg skal ekki álasa stj. fyrir þetta, en mjer skildist, að þetta væru áform stj. eftir kappi því að dæma, sem hún lagði á þetta mál í fyrra. Jeg sje ekki, hvaða ástæða er til þess að eyða miklu af hinum nauma tíma þingsins nú til þess að setja lög og reglur fyrir fyrirtæki, sem enn er óstofnað og enginn veit, hvenær kemur til framkvæmda. Nú er svo ástatt, að mikill fjöldi mála er óútræddur, og væri því óneitanlega gott að losna við slík mál, sem öðrum eins ágreiningi valda eins og þetta. Það er nú búið að þvæla þetta mál allan þennan dag, og verð jeg að segja, að margt hefði mátt þarfara vinna. Svo er 3. umr. eftir, og þá má búast við annari eins hrotu eða jafnvel verri.

Jeg sný mjer þá að málinu sjálfu. Mjer sýnist vel geta komið fyrir, ef aflaleysisár kemur, að verksmiðjan fái lítið eða ekkert að gera, og standi síðan arðlaus ef til vill ár eftir ár. Sjá allir, hver háski getur af slíku stafað. Þessu svarar ráðh. á þann veg, að þá sje ekkert annað en að selja verksmiðjuna! Já, það var þá úrræði, sem hæstv. ráðh. bendir á! Hvaða tryggingu hefir ráðh. fyrir því, að nokkur vilji kaupa verksmiðjuna? Alls enga. Af þessu má sjá, hvílíkt stórtjón slík ráðsmenska getur bakað ríkissjóði. Hví vill ríkisstj. þá ekki heldur taka þann kostinn, að ábyrgjast lán fyrir útgerðarmenn, ef þeir kynnu að vilja ráðast í þetta fyrirtæki, eða mynda fjelagsskap í því skyni? Jeg gæti ef til vill gengið inn á það, en ekki þessa tilhögun. Jeg vil með engu móti leggja út á jafnviðsjála braut og þetta frv. leiðir til, með því að ráðast í miljónafyrirtæki, sem síðan getur staðið ónotað árum saman. Jeg vil heldur ekki gefa útgerðarmönnum undir fótinn með það, að ef þeir vilji ekki skifta við verksmiðjuna, þá geti farið svo, að þeir geti fest kaup á henni fyrir lægra verð en sanngjarnt væri. Jeg vil vænta þess, að hv. þdm. gefi þessu atriði gaum.