10.04.1929
Efri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

39. mál, einkasala á síld

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Sjútvn. hefir ekki getað orðið sammála um þetta frv. Meiri hl. n., hv. 2. þm. S.-M. og jeg, leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt. Minni hl. leggur á móti frv., án þess að gera við það nokkrar breyt. Við 1. umr. fór jeg ítarlega út í þetta mál, svo að jeg tel ekki nauðsynlegt að halda um það langa ræðu nú, nema sjerstakt tilefni gefist til þess. En þar sem komið hafa fram brtt. frá tveim hv., dm. við frv., vil jeg leyfa mjer að fara um þær nokkrum orðum.

Þessar brtt. eru á þskj. 278 og eru mjög vingjarnlegar í garð málsins. Það er ekki farið fram á að breyta þeim tilgangi, sem felst í frv., heldur er aðeins stungið upp á að orða greinar frv. á annan hátt en þar er gert, og ef til vill gera þær skýrari að ýmsu leyti. Jeg býst við, að jeg muni geta greitt flestum þessum brtt. atkv., en þó líklega ekki öllum.

Fyrsta brtt. er þess efnis, að síðari málsgr. 1. gr. frv. verði orðuð á annan veg en í frv. er gert. Breyt. er aðallega í því fólgin, að í stað þess að í frv. stendur, að síldareinkasalan eigi að taka að sjer alla söltun síldar, sem ætluð er til útflutnings söltuð eða verkuð, sje aðeins heimilt fyrir einkasöluna að gera þetta, ef framkvæmdarstj. telji það hagkvæmt vegna rekstrarins. Jeg sje enga ástæðu til að vera á móti slíku. Heimildin er svo rúm, að einkasalan getur gert þetta, ef henni sýnist, alveg á sama hátt eins og ef hún hefði skyldu til að taka söltunina í sínar hendur.

Önnur brtt. er um, að 2. gr. falli niður. En í 2. gr. er gert ráð fyrir því, að framkvæmdarstjórar sjeu 1–3; samkv. síldareinkasölulögunum eiga þeir að vera 3. Jeg sje ekki ástæðu til að hafa á móti því, að þetta breytingarákvæði í frv. falli niður, því að jeg tel fulla nauðsyn á því, að framkvæmdarstjórar sjeu a. m. k. 2, en að sjálfsögðu er það ekki til skaða, að mannaráð sjeu sem mest og best.

Þriðja brtt. er við 4. gr. Hún er aðallega í því fólgin, að takmarka ríkisábyrgð handa einkasölunni. Takmörkin eru þau, að ábyrgð ríkissjóðs skuli aldrei nema hærri upphæð en svo, að hún og varasjóður einkasölunnar á hverjum tíma nemi samtals 500 þús. kr. Þetta hefði eftir frv. getað orðið hœrra, en þó eru þar sett skýr takmörk fyrir því, hve ábyrgðin getur orðið há, því að það er gert ráð fyrir, að hún nemi aldrei hærri upphæð en sem svarar 18 kr. fyrir hverja fullverkaða tunnu síldar.

Það er ekki langt á milli frv. og till. þessara, og geri jeg því ráð fyrir, að meiri hl. sjútvn. geti gengið inn á þessar breyt., þó hann hafi í nál. lagt til, að frv. yrði samþ. óbreytt.

Þá er það 4. brtt., við 6. gr., sem fer fram á, að tillag síldareinkasölunnar í varasjóð verði hækkað úr 1/4% upp í 11/4%, og er það miðað við, að síðari málsgr. 6. gr. frv. falli niður, þar sem ákveðið er, að 24 hlutar af núgildandi útflutningsgjaldi renni í varasjóð einkasölunnar, ef frv. verður samþ. Það er vitanlega til mikilla bóta að hækka tillagið til varasjóðs, fyrst hv. deild vill láta þessa málsgr. 6. gr. falla niður. En jeg get ekki verið samþykkur því, að síðari liður 6. gr. falli niður, og greiði því atkv. á móti þessari brtt. En jeg skil það vel, að eftir atvikum vilji hv. þm. ekki missa þessar tekjur frá ríkissjóði, og þess vegna fara þeir þessa leið með brtt., að hækka það framlag, sem rennur frá einkasölunni í varasjóð, en vilja fella niður þá till. í frv., að 2/3 af útflutningsgjaldinu renni í varasjóð einkasölunnar.

Þá er 5. brtt. viðauki við lögin og bætist aftan við 8. gr. frv., þess efnis, að útflutnings nefndarmenn, umboðsmenn og skrifstofuþjónar einkasölunnar megi ekki reka síldarútveg, síldarsöltun eða kaupa síld til söltunar. Þetta nýmæli er í samræmi við það, sem kom fram í lögunum í fyrra um framkvæmdastjórana. Jeg get fallist á þessa till. og finst það eðlilegt, að starfsmenn einkasölunnar og stjórnendur hennar megi ekki hafa með höndum neitt það, sem gerir þá „interesseraða“ í verði síldarinnar.

Jeg hefi ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. En þó vil jeg aðeins minnast á nál. minni hl. sjútvn. á þskj. 279, og hygg, að jeg geti þá sparað mjer að taka aftur til máls við þessa umr. Minni hl. leggur á móti frv., og verður það helst skilið á áliti hans, að það sje óþarft og horfi til hins lakara að hafa skipulag á síldarsölunni. Það nægir að svara þessu með því að benda á, að þeir menn eru sárfáir, sem eigi viðurkenna, að fullkomin nauðsyn hafi verið á því að taka síldarsöluna þeim tökum, sem gert var í fyrra og farið er fram á í þessu frv. nú. Jeg veit ekki betur en að nauðsyn þess hafi verið svo mikil, að á meðal útgerðarmanna, sem fást við síldarútveg, sjeu sárfáar raddir, sem kjósa aftur það skipulagsleysi á þessum atvinnuvegi, sem áður var, og hefir þeim þó gengið erfiðar en flestum öðrum að skilja nauðsyn skipulags í þessum efnum. Hv. þm. Snæf. mun því vera nokkurnveginn einstæður um þessa skoðun. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta og tek ekki til máls aftur, nema sjerstök ástæða verði gefin til þess.