02.05.1929
Neðri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3336 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

37. mál, verkamannabústaðir

Halldór Stefánsson:

Jeg skal fúslega játa, að það er athugunarvert mál, sem frv. þetta fjallar um. Það er mál, sem hefir bæði menningarlega, heilbrigðislega og mannúðlega þýðingu, að allir íbúar landsins eigi kost á að búa í góðum híbýlum. Það er ein af fyrstu kröfum, sem hver maður hefir rjett til að gera til lífsins. Engu að síður verð jeg að játa, að jeg er fremur illa við því búinn að tala um málið nú, því að þótt till. í þessa átt hafi verið bornar fram á fyrri þingum, hafa þær verið í því formi, að jeg hefi ekki getað fallist á þær og þess vegna hugsað lítt um málið. Hinsvegar fara till. þær, sem liggja fyrir frá hæstv. forsrh., nokkru nær því, sem jeg gæti fallist á. En þær eru svo nýlega fram komnar, að jeg hefi ekki haft tíma til að athuga þær gaumgæfilega. Þó hefi jeg tekið eftir ýmsum atriðum þar, sem jeg tel athugunarverð, og á þeim byggi jeg brtt. mínar á þskj. 569.

Þó að brtt. mínar sjeu allmargar, eru efnisatriði þeirra ekki mörg, því að margar till. hníga að sömu efnislegu atriðunum. Þau efnislegu atriði, sem till. eru bygðar á, eru aðallega fjögur, og þar að auki eru nokkrar orðabreyt. Fyrsta atriðið hefir verið minst á áður. Samkv. 1. gr. frv. er því ætlað að ná aðeins til kaupstaða, en ekki til kauptúna. Greinin fjallar um það, að ríkissjóður skuli styrkja kaupstaði landsins til að koma upp verkamannabústöðum. Jeg get ekki fallist á, að rjett sje að gera mun á kaupstöðum og kauptúnum í þessu efni. Jeg get búist við, að ef sjerstök vildarkjör bjóðast í kaupstöðunum, gæti hafist landnám úr hinum minni kauptúnum og sveitum til stærri bæjanna. Þegar kostur er svona aðgengilegra kjara til húsnæðis, eins og hjer er um að ræða. Verð jeg því að telja, að það geti verið mjög athugavert. Stefnan hefir verið sú undanfarið, að reyna að beina aðsókn fólksins frá kaupstöðunum og fá það til að haldast við í sveitunum. Eigi að síður viðurkenni jeg, að verkamönnum í kaupstöðum og kauptúnum er hin mesta nauðsyn að eiga kost góðra íbúða.

Næsta till. mín er þess efnis, að í staðinn fyrir 2 kr. framlag ríkissjóðs og bæjarsjóða fyrir hvern íbúa komi 1 kr. Ástæðurnar fyrir þessari till. eru aðallega tvær. Fyrst og fremst eru útgjöldin svo mikil, að óvíst er, hversu auðvelt er fyrir aðilja að leggja þau fram, og í öðru lagi er farið fram á meiri tillög en jeg tel brýna þörf á, og skal jeg nú víkja nánar að þessu.

Íbúar í kaupstöðum landsins munu vera nálægt 40 þús. Samkv. manntali 1927 eru þeir 38.800, rúmlega. 2 kr tillag úr ríkissjóði á hvern íbúa er þá 80 þús. kr. alls á ári, og jafnmikið kemur frá bæjarsjóðum. En væri þetta látið ná til kauptúna, verður það svo: íbúar kauptúna, sem hafa meira en 300 manns, eru eftir manntalinu 1927 121/2 þús. íbúar kauptúna og kaupstaða eru þá yfir 50 þús., svo að ef farið væri eftir till. mínum að þessu leyti einu, yrðu árstillög ríkissjóðs og bæjarsjóða yfir 100 þús. kr. Þetta er önnur hlið málsins. Hin hliðin er sú, að framlagið er óþarflega mikið. Eftir till. á þskj. 429 er gert ráð fyrir, að kjörin sjeu þannig, að lánin afborgist með 5% á 42 árum. Í þessum lágu afborgunarkjörum kemur fram sá stuðningur, sem á að veita til húsbygginga. Jeg get ekki sagt, hvað lánsfje, sem aflað væri til þessa, mundi raunverulega kosta mikið og hvaða afborganir mundi þurfa í 42 ár til að ávaxta það fje. En til þess að áætla ekki of lítið, ætla jeg að gera ráð fyrir 21/2% mun á afborgunarkjörum frv. og raunverul. afborgunarkjörum. Þó að jeg geri það, hrökkva þessi tillög ríkissjóðs og bæjarsjóða til að borga vaxtamismun af 4 miljónum. Og jeg get ekki búist við, að svo mikilla aðgerða sje þörf. Hjer er ekki gert ráð fyrir styrk nema til þeirra, sem hafa lág laun og lítil efni, svo enda þótt hv. d. gengi að till. mínum, er kostur allmikilla aðgerða, þar sem þá má byggja fyrir 2 milj.

Þá er þriðja atriðið, að í stað þess, að lánin afborgist með 5%. komi 6%. Ef sú till. verður samþ., minkar ívilnun til þeirra, sem byggja, og þörfin til framlags minkar líka, vegna þess að vaxtamunurinn færist þá saman nær um helming, og þá mætti halda nær sömu framkvæmdum og frv. ætlast til, ef þess reyndist þörf.

Allmargar af till. mínum eru aðeins orðabreyt., t. d. 3. brtt. a og b, 4. brtt. a, b, d og e og 8. brtt. Við 4. gr. er ein brtt., sem er þess efnis, að jeg bæti geymslu við þau 2–3 herbergi og eldhús, sem áætluð eru handa hverri fjölskyldu. Það er hverri íbúð nauðsynlegt að hafa geymslu, en um það er ekkert ákveðið í frv.

Jeg hefi þá gert grein fyrir till. mínum. Og jeg vil endurtaka það, að jeg álít þetta mál mikilsvert, en þurfa gaumgæfilegrar athugunar við, ekki síst þar sem fyrir liggja till. á tveim mismunandi grundvöllum, sem sje í frv. sjálfu og till. hæstv. ráðh. Sje því tvísýnt, hvort rjett sje að afgreiða málið til fulls á þessu þingi.