10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3422 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. 1. þm. Skagf. byrjaði ræðu sína á því að tala um, að jeg væri á móti því, að ákvæði frv. næðu til kauptúna. Jeg tók það einmitt fram við 2. umr., að jeg gæti fallist á till. hv. 1. þm. N.-M. um þetta, en tók fram um leið, að vandkvæði gætu verið á, að sama fyrirkomulag ætti við í þessum efnum í kaupstöðum og kauptúnum. En jeg hefi alls ekki á móti því, að kauptúnin nái sömu byggingakjörum og kaupstaðirnir, heldur tel það sjálfsagt. Í stórum kauptúnum tel jeg víst, að sama fyrirkomulag gæti átt við sem í kaupstöðum, en í smærri kauptúnum geri jeg ráð fyrir, að samvinnufjelagsskapur eða að kauptúnin bygðu sjálf svo sem eitt hús á ári, eða annaðhvert ár, sje með öllu óframkvæmanlegt. Jeg vil þó ekki tefla málinu í hættu með því að leggjast á móti brtt. eins og hún er orðuð, en geri ráð fyrir, að síðar muni reynslan sýna, að aðra leið verði að fara þar.

Þá spilaði hv. 1. þm. Skagf. sína venjulegu grammófónplötu um það, að þetta frv. eyddi sveitirnar. Jeg er hissa á, að hv. þm. skuli álíta hv. þdm. svo fáfróða, að hann bjóði þeim þau rök, að þótt mönnum sje gert lífvænlegra að lifa í kaupstöðunum, þá þurfi það að eyða sveitirnar. Það er mikil trúin á sveitunum, sem hann hefir! Jeg veit ekki betur en að byggingar- og landnámssjóður veiti bændum þau kjör, sem þeir geta búist við að fá best, og betri en þetta frv. um verkamannabástaði, og því get jeg ekki skilið í, hvers vegna er verið að öfundast yfir þessari litlu hjálp til verkamanna, þar sem kunnugt er, að byggingar- og landnámssjóður á fyrst og fremst að ganga til að bæta íbúðirnar í sveitum.

Jeg hefi hjer útdrátt úr skýrslu um húsnæði í Reykjavík, sem Gunnar Viðar hagfræðingur hefir verið að vinna úr með aðstoð undanfarið fyrir bæjarstjórn Reykjavíkur. Þessi skýrsla sýnir, að um 2.000 íbúðir í Reykjavík eru 1–2 herbergi án eldhúsi eða aðeins með aðgangi að eldhús með öðrum, og í þessum íbúðum búa um 5.000 manns. 1.700 þessara íbúða eru í loftherbergjum eða kjallaraholum, sem að dómi lækna og allra mannúðarmanna eru óhæfar til íbúðar og hljóta að leiða til meiri eða minni tortímingar fólks þess, sem þar býr. Jeg get því ekki kallað það annað en fullkomið samviskuleysi hjá hv. 1. þm. Skagf. og hans fylgifiskum að vilja láta afskiftalaust, hvernig fólki líður í bæjunum. Jeg held, að allir hljóti að fallast á, að eitthvað verði að gera til að bœta úr þessu, sem er einhver svartasti bletturinn á þjóðskipulagi okkar.

Hv. 1. þm. S.-M. söng sama söng sem hv. 1. þm. Skagf. að nokkru leyti, og skal jeg ekki fara nánar út í þá sálma, en jeg get ekki sjeð, að af því hljóti að leiða samkepni við byggingar- og landnámssjóð, þó að lánað sje úr öðrum sjóði til bygginga í kaupstöðunum. Hvers vegna þarf að halda fólki í sveitunum með því að láta fólk lifa eins og skepnur í bæjunum? Þetta er í meira lagi níðingslegur hugsunarháttur.

Jeg veit, að hægt er að benda á aðrar leiðir til þess að gera verkamönnum kleift að byggja yfir sig, og eitt ráðið er í sjálfu sjer eðlilegast, það, að verkamenn efli svo samtök sín, að þeim verði kleift, með eða án verkfalla, að hækka kaupgjald sitt til stórra muna, svo að þeir geti bæði hjálparlaust bygt yfir sig sómasamlegt húsnæði og goldið þá leigu, sem slíkt húsnæði krefur nú. En mikið má vera, ef þeir menn, sem fastast ganga fram gegn þessu máli, eru fremur hlyntir því, að kaupgjald verkamanna hækki svo, að þeir komist í þann tekjuflokk að geta bygt yfir sig hús hjálparlaust.

Hv. 1. þm. N.-M. varði brtt. sínar um hækkun vaxta og hækkun á framlagi ríkissjóðs og bæjarsjóða með því, að kjörin yrðu eftir sem áður betri en nú. Nú vil jeg spyrja hann, hvort hann viti, hve mikið verkamenn byggja hjer, og þá einkum í þeim tekjuflokkum, sem byggingarsjóðir verkamanna eiga að vera miðaðir við. Jeg hygg, að það sjeu ekki margir verkamenn með árstekjur undir 3.800 kr., sem byggi sjer hús, og að mínu áliti er þeim ómögulegt að gera það, nema með opinberri aðstoð, sem bætir lánskjörin hjá þeim til stórra muna frá því, sem nú er.

Þá eru það afborgunar- og vaxtakjörin. Satt er það að vísu, að 5% á ári í 42 ár í afborgun og vexti eru góð kjör, en jeg vil benda á, að þessi kjör eru betri annarsstaðar. Þannig segir t. d. „Mgbl.“, biblía Íhaldsflokksins, frá því, að í Frakklandi sjeu eigi greidd nema 3% á ári um sama tíma. Jeg vil ennfremur benda á, að samkv. till. hv. 1. þm. N.-M. eiga þessi kjör að gilda í 42 ár, og jafnt fyrir það, þó að markaðsvextir lækki á sama tíma, og ef svo færi, yrði ívilnunin ekki svo mikil sem hún virðist, samanborið við núverandi bankavexti.

Hv. þm. spurði, hvernig verkamenn færu að því að búa í húsum, sem hefði verið dýrt að byggja og væru hátt leigð. Já, því er fljótsvarað: Þeir neyðast til þess að leigja ljelegustu og minstu íbúðirnar, kjallaraholurnar og loftherbergin, eins og skýrsla sú, er jeg las upp tölur úr, ber með sjer. Með því fyrirkomulagi, sem nú er, fá verkamenn ekki þak yfir höfuðið annarsstaðar en í þessum skúmaskotum.

Mjer þykir leitt, að hv. 1. þm. N.-M. skuli halda svo fast í þessar brtt. sínar, sem skapa mun verri kjör en frv. gerði með breytingum hæstv. forsrh. á því. Jeg er hræddur um, að afleiðingin verði sú, að aðeins þeir verkamenn, er hæstar tekjur hafa, fái íbúðir. En vitanlega þurfa lögin að vera svo úr garði gerð, að allir efnalitlir menn, sem ekki þiggja af sveit, gætu komist undir þetta fyrirkomulag smám saman.