18.02.1929
Sameinað þing: 1. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

Minning látinna manna

Aldursforseti (BK):

Samkvæmt venju vil jeg fyrst geta þeirra þingmanna, er látist hafa síðan síðasta þingi sleit. Hafa 4 fyrverandi þingmenn látist síðan og einn þingmaður, sem nú átti sæti á þingi.

Hinn 13. júlí f. á. ljetst Tryggvi bóndi Bjarnason í Kothvammi. Hann var fæddur 19. júní 1869 á Síðu í Þverárhreppi. Hann gekk í Flensborgarskólann árin 1894 og 1895. Tryggvi bóndi Bjarnason var jafnan mjög við opinber störf riðinn í hjeraði, enda naut hann mikils trausts þeirra, er hann þektu. Þannig var hann hreppsnefndaroddviti frá 1898-1907 og frá 1916-1922. Hreppstjóri var hann frá 1907 til dauðadags og sýslunefndarmaður jafnlengi. Í sóknarnefnd gekk hann 1908 og varð formaður hennar 1911. Formaður fasteignamatsnefndar í Vestur-Húnavatnssýslu varð hann 1916 og hjelt því starfi til dauðadags.

Alþingismaður fyrir Húnavatnssýslu var hann árin 1912 og 1913 og ávann sjer þar eins og annarsstaðar hið mesta traust.

Þá ljetst prófessor og dr. Valtýr Guðmundsson í Kaupmannahöfn hinn 22. júlí f. á. Hann var fæddur 11. mars 1860 að Árbakka í Húnavatnssýslu og gekk í latínuskólann árið 1877 og útskrifaðist þaðan 1883. Meistarapróf tók hann við Kaupmannahafnarháskóla 1887 í norrænni málfræði og dr. phil. varð hann árið 1889. Kennari var hann við Borgerdydsskólann í Kaupmannahöfn árin 1887-’94. Þar eftir var hann docent við Hafnarháskóla í sögu Íslands og bókmentum árin 1890-1920, og prófessor við sama háskóla í íslenskri tungu og bókmentum 1920, og hjelt hann því embætti til dauðadags.

Prófessor Valtýr Guðmundsson skrifaði sæg af ritgerðum, ýmist einn eða í samvinnu við aðra, sem of langt yrði hjer upp að telja. Þar á meðal gaf hann út hið velþekta tímarit „Eimreiðin“ í 23 ár, eða frá 1885-1917. í stjórn bókmentafjelagsins í Kaupmannahöfn var hann, fyrst skrifari, þá gjaldkeri og síðast formaður árin 1885-1905. Ennfremur í stjórn hins konunglega norræna fornfræðafjelags (fornritadeildinni) frá 1902, og í stjórn fjelagsins „De danske Atlanterhavsöer“ 1903-1917. Kallaður var hann til Ameríku 1896 til að rannsaka „Vínlands“-rústir. Loks var hann alþingismaður fyrir Vestmannaeyjar 1894-1901, fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu 1903-1909 og fyrir Seyðisfjörð 1911-1914.

Prófessor Valtýr Guðmundsson var bjartsýnn gáfu- og hugsjónamaður, sem framfylgdi hugsjónum sínum með áhuga og dugnaði, og hafði raunhæfa þekkingu á mörgum sviðum. Hann var því einn af hinum allra nýtustu þingmönnum. Hann var og sjerstakur drengskaparmaður.

Þar næst andaðist prófastur Páll Ólafsson í Vatnsfirði, hinn 11. nóvember f. á. Hann var fæddur í Stafholti hinn 20. júlí 1850. Hann lauk námi í lærða skólanum 1869 og í prestaskólanum 1871. Árið 1873 vígðist hann aðstoðarprestur til föður síns og fjekk Hestþing í Borgarfirði 1875, en sagði þeim lausum ári síðar til þess að gerast aðstoðarprestur föður síns, og mun hann hafa þjónað Melstað eftir lát föður síns til 1877. í fardögum það ár fjekk sjera Páll Stað í Hrútafirði, en árið 1880 Prestsbakka í Hrútafirði, sem hann þjónaði ásamt Staðarprestakalli, sem þá lagðist niður sem sjerstakt prestakall. 1901 fluttist hann í Vatnsfjörð og var þar til æfiloka.

Lausn fjekk sjera Páll frá prestsskap í fardögum 1927, og hafði þá þjónað prestsembætti í tæp 55 ár. Prófastur var hann í Strandaprófastsdæmi 1884-1901 og í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi frá 1908. Hefir yfirboðari hans rómað hversu vel prófastsstörfin voru af hendi leyst, svo og prestsstörf hans. Sýslunefndarstörf hafði hann á hendi í 15 ár og alþingismaður var hann árin 1886-1891 fyrir Strandasýslu.

Prófastur Páll Ólafsson var jafnan í miklum metum hafður, meðal annars sökum dugnaðar hans og göfuglyndis.

Þá ljetst fjármálaráðherra Magnús Júlíus Kristjánsson í Kaupmannahöfn hinn 8. des. f. á. Hann var fæddur 18. apríl 1862 á Akureyri. Hann byrjaði smíðanám á Akureyri 1878 og lauk því í Kaupmannahöfn 1882.

Frá 1882-1893 vann hann að verslunarstörfum og byrjaði þá eigin verslun og rak hana ásamt sjávarútvegi til ársloka 1917. En þá var hann kvaddur af landsstjórninni til að stjórna landsversluninni, og gegndi hann því starfi þangað til hún lagðist alveg niður.

Við opinber mál var hann riðinn á Akureyri um 20 ár, þar af sat hann í bæjarstjórn Akureyrar í 12 ár og átti þar sæti, er hann fluttist til Reykjavíkur.

Alþingismaður fyrir Akureyrarkaupstað var hann árin 1905-1908, var aftur kosinn þar 1913 og hjelt því þingsæti til 1923. Landskjörinn þingmaður varð hann 1926 og hjelt því sæti til dauðadags. Hann var kosinn forseti sameinaðs þings 1922 og 1923. Og loks varð hann fjármálaráðherra 1927 og gegndi því embætti til dauðadags.

Magnús J. Kristjánsson ráðherra var skapfestumaður, trygglyndur og hreinlyndur, gætinn og áreiðanlegur og framsækinn atorkumaður.

Þá andaðist Guttormur Vigfússon búfræðingur í Geitagerði 26. desember f. á. Hann var fæddur í Geitagerði 8. ágúst 1850, og naut nokkurrar heimilisfræðslu þegar á unga aldri, og gekk síðan í búnaðarskóla á Stend í Noregi, var þar frá því í desember 1875 til 30. mars 1877 og tók fullnaðarpróf þann sama dag með 1. einkunn. Hann ferðaðist um Norður-Múlasýslu sumurin 1878-1880 til að leiðbeina bændum í búnaði. Var settur búfræðikennari við Möðruvallaskóla 1880-1881. Ferðaðist um Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu sumarið 1881 í búnaðarerindum. Sigldi þá um haustið til Kaupmannahafnar og hlýddi á fyrirlestra í húsdýrafræði, jarðræktarfræði og mjólkurfræði við búnaðarháskólann. Skólastjóri varð hann við búnaðarskólann á Eiðum frá því hann stofnaðist 1883 til 1888. Sat í hreppsnefnd Eiðahrepps 1884-1888 og var oddviti. í hreppsnefnd Vallahrepps 1888-1894 og Fljótsdalshrepp 1894-1916, og var oddviti hennar 1895-1913. Þá var hann sýslunefndarmaður árin 1900-1907. Sáttasemjari var hann mörg ár. Þá var hann skipaður formaður fasteignanefndar 1916 fyrir Norður-Múlasýslu. Alþingismaður var hann fyrir Suður- Múlasýslu 1892-1908.

Um Guttorm Vigfússon segir einn þingmaður, sem hafði sjerstaklega náin kynni af honum:

„Hann gat sjer jafnan góðan orðstír á þingi, var einbeittur maður og ötull til vinnu og vandaði manna best orð sín og athafnir.“ Og svo mun hann einnig hafa reynst í hjeraði.

[Þingmenn vottuðu virðing minningu þessara manna með því að standa upp].