18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (2250)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Þess þekkjast dæmi meðal lægri dýrategunda, að foreldrarnir ráðast á afkvæmi sín og eta þau. En hitt mun sjaldgæfara, að afkvæmið gleypi foreldri sitt. En það er einmitt það, sem er að gerast hjer. (MJ: Ætli þeir sjeu ekki hvor undan öðrum!). Nei, það er afkvæmið, sem vill gleypa móður sína með húð og hári, því Reykjavík var upphaflega ekkert annað en sjóþorp úr Seltjarnarneshreppi. Og þessu gerræði er ekki einungis stefnt að þessum eina hreppi, heldur og að Kjósarsýslu allri. Seltjarnarneshreppur er einn af fjórum hreppum þeirrar sýslu, og þeirra langöflugastur, því nær helmingur af gjöldum sýslunnar hvílir á honum. Það er því ljóst, að þegar búið væri að leggja þennan hrepp undir Reykjavík, þá verður Kjósarsýsla á eftir eins og vængbrotin æður, máttlaus gegn þeim árásum, sem hún síðar kann að verða fyrir úr sömu átt. Hjer er því sannarlega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Það er sagt um skrattann, að hann sje það hæverskur, að byrja aðeins með litla fingurinn þegar hann ætlar að koma hendinni einhversstaðar inn. En hjer er gerð tilraun til að stinga bæði löngutöng og sleikifingri í Kjósarsýslu í senn.

Þá er aðferðin. — Eins og hv. 2. þm. G.-K. gat um, þá eru lagafyrirmæli um það, að leita skuli samþykkis aðilja í slíkum málum. En þetta mál er borið fram án þess talað sje um það einu orði við viðkomandi hrepp eða sýslu. Er þó hvortveggja aðili svo að segja við bæjarvegginn og engu lengra frá bæjarstjórn Reykjavíkur en frá þeirri nefnd, sem fær þetta mál hjer og mjer skilst, að hv. flm. vilji, að leiti samninga um þetta mál við Seltjarnarneshrepp og Kjósarsýslu. En Reykjavík fer hjer eins og togaraskipstjóra, sem sagði: „Við tölum ekki við seglskip.“ „Jeg er höfuðstaður landsins, en þið ekki annað en vesall sveitahreppur og sveitasýsla. Hvað höfum við að tala við ykkur?“ — Nú er það upplýst, að Seltjarnarneshreppur mótmælir þessari innlimun, og það er víst, að Kjósarsýsla mótmælir henni líka. Og þótt Reykvíkingar vilji rjettlæta þetta með því, að það sje til hagsbóta fyrir Reykjavík, þá hafa fleiri en hún hagsmuna að gæta, og svo er einnig um hinn aðilann. Sýslan hefir hjer hagsmuna að gæta. Og Seltjarnarneshreppur hefir líka hagsmuna að gæta. Háttv. 2. þ. m. Reykv. talaði að vísu fagurlega um það, að ekki væri hætta á, að kosti Seltjarnarneshrepps yrði þrengt, þegar búið væri að innlima hann Reykjavík. En það er þó dálítil ástæða til að efast um, að svo verði. Það sjá allir, sem nokkuð fylgjast með bæjarmálefnum Reykjavíkur, að áhuginn hringsnýst allur um miðbæinn. Útjaðrarnir verða útundan með framkvæmdirnar. Þeir fá tæpast vegi og naumast vatn að drekka. Svo að það gæti orðið langt að bíða þangað til farið væri að svipast eftir þörfum Seltirninga eða Viðeyjarmanna. Það er og alkunna, að engar jarðir eru ver ræktar heldur en flestar þær, sem Reykjavík á, vegna þess að bærinn sem landsdrottinn gerir ábúendum illkleift að sýna þeim nokkurn sóma. Það er því ekki að undra, þótt Seltirningar vilji vera lausir við þesskonar forsjá. Það eru sem sje m. a. samkvæmt því, sem hjer hefir sagt verið, mestar líkur til þess, að tekjur þær, sem Reykjavíkurbær fengi af íbúum Seltjarnarneshrepps, mundu látnar renna til bæjarfjelagsins sjálfs, en hinsvegar trassað að bæta úr þörfum viðkomandi sveitarfjelags. Það mun því hollast eins og hingað til að fela hverjum hjer sína eigin hagsmuni.

Það má vel vera, að Reykjavík telji þetta hagsmunamál fyrir sig. Þó er jeg nú hræddur um, að hjer gæti farið eins og forðum, að þó að mögru kýrnar jeti hinar feitu, þá verði þær samt jafnmagrar á eftir. Jeg er ekki viss um, að Reykjavík takist að gera Seltjarnarneshrepp að gullkistu fyrir sig, þó að því yrði fram komið að eyðileggja hann.

Því hefir verið haldið fram í þessum umræðum, að Seltjarnarneshreppur lifi á Reykjavík í atvinnumálum. Vitanlega hafa ýmsir, sem búsettir eru í Seltjarnarneshreppi, atvinnu í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. En þetta er sitt á hvað. Og jeg hygg, að þeir sjeu þó öllu fleiri, sem sækja atvinnu úr bænum til Seltjarnarneshrepps, heldur en þaðan til Reykjavíkur; og þess vegna styður hreppurinn bæjarfjelagið eigi síður en bærinn hreppinn.

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) hafði nokkra sjerstöðu gagnvart hv. 2. þm. Reykv.; hann mændi ágirndaraugum sínum einkum á Skildinganes, og jeg verð að segja, að jeg tel það sanni nær. En sennilega vakir þó það sama fyrir báðum þessum háttv. þm., að ná í allan hreppinn, þó að annar þeirra vilji fara að því með nokkuð meiri lægni og krækja fyrst í þennan litla blett. Þá gæti gangurinn verið þessi: Fyrst Skildinganesið, svo allur Seltjarnarneshreppurinn og því næst aðrir hreppar Kjósarsýslu smám saman, þangað til henni yrði allri náð. Það eru smáskamtalækningar, sem hjer eru á ferðinni, og með þeim á að auka landaumráð bæjarfjelagsins.

Háttv. flm. töldu báðir, að öll velgengni í Seltjarnarneshreppi á síðari árum stafaði frá Reykjavík. En jeg skal þá fræða þessa háttv. þm. um það, að á meðan Reykjavík var aðeins smáþorp á Seltjarnarnesi, voru stórbændur og vel megandi menn búsettir á nesinu, sem þektir voru um land alt fyrir rausn og skörungsskap. Stafaði velgengni þeirra máske frá Reykjavík? Jeg er hræddur um ekki. Seltjarnarneshreppur stóð betur að vígi áður en Reykjavíkurbær kom til sögunnar, og Reykjavík hefir sölsað til sín frá hreppnum að nokkru leyti bæði auðæfi lands og sjávar. Nú eiga Seltirningar þess vegna um sárt að binda; fiskimiðin þar umhverfis eru þorrin og allmikið land af þeim gengið. —- Það er því mjög óviðeigandi, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að Seltjarnarneshreppur hefði verið afæta á Reykjavík; það er bærinn, sem hefir verið afæta á hreppnum. Hreppurinn hefir aldrei þurft neitt til Reykjavíkur að sækja.

Þessir háttv. þm. voru að tala um landgæði Seltjarnarneshrepps og gera lítið úr þeim. En hvaða landgæði eru í Reykjavík?! Jeg sje þau ekki. Jeg veit ekki betur en að lega Reykjavíkur á landinu og aðstaðan til fiskimiðanna hafi gert hana að því, sem hún er, að því þó ógleymdu, sem löggjafarvaldið hefir hlaðið undir hana með ýmsum aðgerðum í sambandi við það, að hún hefir verið gerð að höfuðstað landsins. En Seltjarnarneshreppur hefir frá náttúrunnar hendi mjög svipaða aðstöðu til að njóta gæða lífsins, en Reykjavík hefir ekki skapað þá aðstöðu.

Háttv. 2. þm. Reykv. var að lýsa því, hversu sárt það væri fyrir Reykvíkinga að stara á Skildinganes, rjett utan við merkjalínu bæjarins, og hugsa til þess, að það skuli ekki vera reykvíksk lóð. Þangað geti menn flutt úr bænum og skotið sjer þannig undan bæjargjöldum. Jeg get ákaflega vel skilið, að það muni vera sárt fyrir þá menn, sem horfa slíkum girndaraugum á þennan álitlega blett. En augu þeirra gætu hvarflað víðar. Það er, eins og hv. 2. þm. G.-K. sagði, altaf eitthvað utan við merkin, þar sem þeir gætu komið auga á girnilega bletti. Mætti þannig halda áfram umhverfis landið. — En jeg vil til samanburðar minna á, að fast við Kaupmannahöfn er sjerstakur borgarhluti, sem heitir Friðriksberg; það er mjög girnilegur blettur, og hefir borgarbúum verið mjög hugleikið að sameina hann höfuðborginni. En Friðriksberg er sjerstakt lögsagnarumdæmi. Og það er ekkert fráleitara hjer, þó að Seltjarnarnes sje fráskilið Reykjavíkurbæ.

Auk þess sem þetta frv. er svo hraparlega ranglátt í garð annars lögsagnarumdæmis — Seltjarnarneshrepps —, þá er það flutt með svo miklu offorsi og ókurteisi, að jeg verð að álíta, að það eigi alls ekki skilið að komast til nefndar.