11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hæstv. forsrh. (TrÞ) gaf yfirlýsingu um skoðun hv. frsm. meiri hl. (HJ) á því, hvernig skilja bæri tekjuupphæð þá, sem undanþegin er skattaukanum. Fanst mjer yfirlýsing þessa hv. þm. (HJ) koma úr hörðustu átt, er hún kemur nú ári seinna, enda þótt hann sæti hjer í deildinni, er málið var rætt, og greiddi atkvæði, án þess að láta þessa skoðun sína í ljós með einu orði. „Þagað gat jeg þó með sann, þegar hún Skálholtskirkja brann“, sagði kerlingin.

Hæstv. forsrh. (TrÞ), sem vildi láta gera mun á sjer sem forsætis- og fjármálaráðherra, sagði, að upplýst hefði á tímabilinu frá í janúar og fram í febrúar, að l½ milj. kr. tekjuafgangur myndi verða frá síðasta ári. Jeg hefi ekki aðgang að plöggum stjórnarinnar, svo að jeg get ekki fullyrt um, hvenær þessi vitneskja fjekst, en jeg býst við, að hæstv. fjmrh. (TrÞ) hafi fylgst svo vel með fjárhag ríkisins, að hann hafi vitað nokkurn veginn, hve mikill tekjuafgangur yrði, þó nokkuð löngu áður. Jeg held, að þetta hafi því eigi verið ástæðan til þess, að fyrri skipunin var afturkölluð, þótt hæstv. forsrh. láti það í veðri vaka. Jeg bað skattstjóra að gefa mjer skýrslu um, hve miklu muni ríkissjóð, að feldur sje niður 25% viðaukinn og ef miðað er við 4000 kr. skatttekjur, eins og í núverandi lögum. Hann gaf þau svör, að 25% viðaukinn hefði orðið 1925 kr. 537 þúsund og 1927 kr. 156 þúsund.

Nú má gera ráð fyrir, að árið 1928 sje svipað og 1925, ef ekki hærra. Má því gera ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs minki um alt að miljón króna.

Hæstvirtur forsrh. gaf þau svör, er hann var spurður, hvort hann hefði verslað með þennan tekjuauka við hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að þetta kæmi engum við. En jeg held, að hann hafi komið fram sem forsætis- og fjármálaráðherra við það tækifæri, og að framkoma hans sem ráðherra hljóti ávalt að koma almenningi við. Sjerstaklega virðist mjer það koma almenningi við, ef hæstv. forsrh. hefir svift ríkissjóð minst hálfri miljón króna með því að láta vera að framkvæma stjórnarathafnir, sem ætlast var til af honum að framkvæma. Mjer finst furðulegt, að hæstv. forsrh. skuli segja þetta. Þá væri og fróðlegt að heyra, hvort hann vegna þessarar milligöngu sinnar hefði komist á þá skoðun, að lækka skuli tekjuskatt yfirleitt, eins og hv. 2. þm. G.-K. sagði. Og ef stjórnin nú vill hafa sömu tekjur framvegis, hvar ætlar hún þá að taka þær, ef hún ætlar að byrja á því að lækka skatt af gróða. Fróðlegt væri að heyra, hvort Framsóknarflokkurinn ætlar þá að taka upp þá stefnu, að taka toll af þurftarlaunum, eins og Íhaldsflokkurinn hefir að stefnumáli. Við jafnaðarmenn höfum heyrt á ræðu hæstv. þáv. fjármrh. (TrÞ), hvernig hagur ríkisins er stæður, og því hefir okkur dottið í hug, að annaðhvort mætti gera, ljetta af sköttum eða framkvæma meira en áður. Við munum því bera fram frv. um lækkun á verðtollinum, og gefst þá hæstv. forsrh. og Framsóknarflokknum kostur á að sýna hug sinn í þessum málum.