11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Jeg átti kost á að vera meðflm. að þessu frv., og jeg hefði vel getað orðið það vegna þess, að jeg er fylgjandi hverri lækkun, sem fæst á þessum tekjuskattsviðauka. En jeg vildi þó ekki gerast flm., því jeg er mótfallinn viðaukanum yfirleitt. Jeg álít skattinn þegar of háan og get því ekki gengið inn á að gerast flm. að neinu frv. um viðauka.

Mjer finst þetta frv. vera rjett mátulegt á hv. 2. þm. Reykv. (HV), flm. laganna í fyrra. Hann var svo óljós í því máli í fyrra, að engu tali tók. Jeg beindi oft til hans þeirri fyrirspurn í fyrra, hvað hann ætti við með „árstekjum“. En jeg fjekk ekkert svar. — Þar getur verið um fleiri stig að ræða. Fyrst og fremst allar tekjur mannsins, þar næst allar tekjur að frádregnum kostnaði við að afla þeirra, og loks þær tekjur, er endanlegur skattur er reiknaður af. En hann gat aldrei skilið þetta og var altaf að stagast á árstekjum. Jeg skildi frv. svo í fyrra, að þar væri átt við skattskyldar tekjur. Mjer hugkvæmdist ekki þá hin slynga aðferð, sem beitt er í þessu frv., að miða viðaukann við sjálfa skattupphæðina. Þá er ekkert um að villast.

Hv. þm. lætur sjer annars fátt um þetta frv. finnast. Hann er ávalt með því, að hafa skattinn sem hæstan og er öndverður öllum lækkunum. Hann sagði, að síst hefði átt að lækka tekjuskattinn, ef rjett hefði verið að lækka skatta. En það var eðlilegt, að stjórnin feldi niður viðaukann, úr því hún taldi rjett að lækka skatta. Til þess hafði hún heimild. Hún gat engan annan skatt lækkað. Það var bein skylda hennar að innheimta ekki viðaukann, ef ríkissjóður þyrfti hans ekki við. Jeg varð satt að segja hissa, er jeg heyrði, að viðaukann ætti að innheimta. Heimildin var aðeins einskonar öryggisráðstöfun til að grípa til, ef í harðbakka slægi. Það vita allir, að hagur ríkissjóðs stendur með miklum blóma, og var því ekki nema eðlilegt, að stjórnin hyrfi að þessu ráði.

Mjer heyrðist hv. 2. þm. Reykv. vera að tala um, að menn stæðu misjafnlega að vígi með að koma sjer undan þessum skatti. Ef hv. þm. hefir sagt þetta, þá hefir hann einmitt gripið á kýlinu. Því að það er einmitt aðal ókostur tekjuskattsins, hve afar erfitt er að fá út rjettan grundvöll, þ. e. rjetta mynd af tekjum manna. Og það gerir svo allan skattinn ranglátan.

Hv. 2. þm. Reykv. þótti það ótrúlegt, að stjórnin hefði gripið til þess ráðs, að greiða útgerðarmönnum uppbót til að fá deiluna leysta. Jeg skal nú ekkert tala um það mál að svo komnu. En hitt verð jeg að segja, að mjer fanst það ekkert ótrúlegt, að stjórnin gripi til þeirra ráða, eftir það, sem á undan var farið. Rjett áður hafði hún einmitt leyst aðra kaupdeilu með greiðslu úr ríkissjóði. Þá varð jeg hissa, er jeg heyrði það. — Annars gengu hjer um bæinn ýmsar sögur um þetta. Jeg heyrði t. d., að stjórnin hefði lofað útgerðarmönnum því, að fella niður kola- og salttollinn. Jeg veit ekkert hvað satt er í þessu. En það væri ákaflega æskilegt, að fá skýr svör. Það væri ákaflega æskilegt að fá að vita, hvort kaupdeilan er orsök til þess, að viðaukinn var niður feldur, eða hvort það er hin góða afkoma ríkissjóðs, sem sneri hug stjórnarinnar í því máli.