14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg stend aðeins upp til þess að bera af mjer sakir. Hv. 1. þm. Skagf. áfeldi mig fyrir, að jeg skyldi þakka hv. 2. þm. G.-K. og hv. 3. þm. Reykv. það drenglyndi, sem þeir nú sýna, þar sem jeg hefði sjálfur aldrei rokið upp til þess að verja fyrverandi stjórn, þegar á hana var ráðist. Þetta er ekki rjett. Að vísu var jeg fyrverandi stjórn yfirleitt andstæður, en þó kom fyrir, að jeg varði hennar málstað, þegar mjer bauð svo við að horfa. Gerði jeg það stundum í fullri andstöðu við mína eigin flokksmenn, og hlaut af nokkra óvild sumra manna, eins og gengur. Stundum ljet jeg að vísu vera að segja skoðun mína, en atkv. mitt bar þá vott um afstöðu mína. Að þessu athuguðu vil jeg álíta, að jeg hafi fult leyfi til þess að þakka hv. 2. þm. G. K. og hv. 3. þm. Reykv. fyrir þeirra framkomu í þessu máli. Vil jeg alls ekki gangast undir það hugarfar, að telja alt ilt hjá andstæðingunum, sem líka kemur fram í því, að telja alt rjett og satt hjá sjer og sínum flokksmönnum. Segi jeg þetta að gefnu tilefni, því að jeg vil ekki fylla hóp þeirra manna, sem telja altaf rjettan málstað sinna flokksmanna, en alt rangt hjá andstæðingunum.