07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Magnús Guðmundsson:

Það er ekki til mikils að vera að ræða þetta frv., því að litlar líkur eru fyrir því, að það komist í gegn á þessu þingi, ekki þó af því, að frv. hafi verið borið svo seint fram, heldur af því, hve illa hefir gengið að fá það til umr.

Jeg get ekki neitað því, að mjer var dálítil forvitni á að heyra ræðu hv. flm. fyrir þessu frv., en jeg gat ekki skilið ræðu hans á annan veg, en að hann væri að reyna að bera í bætifláka fyrir þennan flokksbróður sinn á Akureyri, sem hefir orðið fyrir því óláni að misþyrma börnum, sem honum var trúað fyrir. Í núgildandi lögum er þung refsing lögð við misþyrmingu unglinga. í 204. gr. hegningarlaganna segir svo: Ef maður misþyrmir konu sinni eða kona manni sínum, og þau eru samvistum, þá varðar það fangelsi, þótt ekki hljótist áverki eða annar skaði af því, eða betrunarhússvinna alt að 2 árum, ef miklar sakir eru. — Sömu hegningu skal sá sæta, sem misþyrmir börnum sínum eða annara börnum, sem honum er trúað fyrir til umönnunar.

Það er ekki vafi á því, að þetta ákvæði 204. gr., hlýtur að eiga við kennara líka. En í þessu frv. er gert ráð fyrir sektum fyrir svona tiltektir, þó að vísu standi, „nema þyngri refsingar liggi við.“ En til hvers ætti að vera að setja sektir við atferli, sem svo þung refsing liggur við samkv. núgildandi lögum, ef það er ekki til að hjálpa og ljetta undir með afbrotamönnum?

Hv. flm. sagði, að þessi kennari á Akureyri hefði verið flæmdur burt. Ég hefi ekki heyrt annað en að hann væri enn kyr við starfa sinn og ótekinn til refsingar. Að um misþyrmingu hafi verið að ræða, hefi jeg ekki verið í vafa um, eftir að jeg las skýrslu þessa kennara, sem hann sjálfur birti í „Morgunblaðinu“ um málið. Hann segist þar hafa tekið einn drenginn steinbítstaki með hægri hendi og barið hann með þeirri vinstri, og er svo að kvarta yfir því, að því er virðist, að höggin hafi ekki verið mjög sterk, af því að hann hafi haft hægri hendina fasta. Ef þetta er ekki misþyrming, þá veit jeg ekki, hvað á að nefna því nafni. Jeg er því alveg hissa, að hv. flm. skuli vera að tala um, að þessi maður hafi verið flæmdur burt. Hann átti auðvitað strax að láta af embætti og fá refsingu fyrir þessa meðferð á barninu, því að slíkt á ekki að líðast, að kennarar leyfi sjer að fara svona með börn.

Að öðru leyti skal jeg ekki fara út í að ræða þetta frv., en ef það fer til n., sem jeg á sæti í, eins og hv. flm. ætlast til, þá mun jeg fyrir mitt leyti heimta skýrslu um þetta mál. Mjer finst það liggja svo fyrir, að ekki geti komið til mála, að þessi kennari haldi áfram starfi sínu, því að jeg fæ ekki betur sjeð, en að hann hafi brotið ákvæði 204. gr. hegningarlaganna.