07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Sigurður Eggerz:

Mjer þykir leitt, ef hv. þm. V.-Ísf. hefir haldið, að jeg vildi gefa skakka mynd af ummælum hans um hina íslensku kennarastjett í sambandi við þetta mál. Það er langt frá því, að jeg hafi hina minstu tilhneigingu til að setja þann blæ á málið, að honum sje til miska. En hv. þm. staðfesti þó með ræðu sinni, að komið hefði fyrir, að íslenskir kennarar hefðu beitt líkamlegum refsingum, og það nýlega.

Mjer þótti leiðinlegt að heyra hv. flm. halda því fram, að kæran gegn skólastjóranum á Akureyri hefði verið notuð pólitíkst af Sigurði Heiðar. Jeg veit, að þetta er með öllu rangt. Blaðið „Verkamaðurinn“ fitjaði fyrst upp á þessu máli, og hið fjölritaða skjal, sem hv. þm. varð svo tíðrætt um, var svar og leiðrjetting á greininni í „Verkamanninum“. En af því að jeg hefi átt tal við Sigurð Hlíðar um þetta mál, veit jeg hve mjög þessi atburður hefir fengið á þau hjón. Hv. flm. þarf ekki að furða sig á því, þó að stórhneyksli eins og þetta hafi verið notað í kosningabaráttunni, en það er alt annað en að faðir sje að nota barn sitt til að gera pólitískan hvell, enda veit jeg, að allir, sem þekkja Sigurð dýralækni, vita, að hann er svo prúður maður, að hann mundi aldrei láta sjer slíkt til hugar koma. Jeg vildi því óska, að hv. þm. Ísaf. vildi draga þessa óviðeigandi ákæru til baka. Sigurður Hlíðar var beinlínis skyldugur að kæra, ekki vegna síns eigin barns, heldur vegna allra barna í skólanum.