04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

51. mál, yfirsetukvennalög

Jón Auðunn Jónsson:

Það, sem veldur því, að jeg og ýmsir aðrir hv. þm. hafa eigi getað aðhylst þær breytingar, sem hjer er farið fram á, er ekki það, að við teljum, að þessum starfs mönnum sje launað verk sitt sem skyldi. Ástæðan er sú, að við höfum ekki viljað opna launalögin, ef svo mætti að orði kveða. Ef hringlað er í þessari löggjöf frá ári til árs, mundi það vafalaust hafa það í för með sjer, að dregið yrði að endurskoða hana. En til þeirrar endurskoðunar ber brýna nauðsyn, og allur dráttur á henni er mjög óheppilegur. Því neitar enginn, að yfirsetukonum sje illa launað, en slíkt hið sama má segja um fjölda af hinum lægri starfsmönnum úti um bygðir landsins. Skal jeg þar nefna t. d. hreppsnefndaroddvita. í stórum sjávarþorpum eru störf þeirra svo mikil, að þeir verða að verja mestu af starfskröftum sínum til að sinna þeim. En kaupið, sem þeim er greitt, er ekki meira en þriðjungur af því, sem þeir þyrftu að fá, svo að viðunandi væri.

Jeg vil nota tækifærið til að skjóta því til n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort eigi væri hægt að auka störf yfirsetukvenna og sjá þeim þannig fyrir viðbótartekjum. Ýmsir merkir læknar hafa í viðtali við mig látið þau orð falla, að hjúkrunarkona þyrfti að vera í hverri sveit; og mundi því fje betur varið, sem gengi til þeirra, en til að launa eins marga lækna og nú er gert. Með því að leggja niður nokkur læknaembætti, mætti gera þetta ríkinu að kostnaðarlausu, en heilbrigðismálum þjóðarinnar mundi betur borgið en áður. Þessi störf, hjúkrunarstörfin í sveitum, tel jeg, að yfirsetukonur eigi að annast og fá sæmilegar tekjur fyrir.

Hv. þm. Dal. gerði mikið úr misrjetti karla og kvenna til kaupgjalds. En sje litið á laun hinna lægri starfsmanna yfirleitt, sjest, að yfirsetukonur eru ekki ver launaðar en ýmsir aðrir starfsmenn, þó að karlmenn sjeu. En eins og jeg tók fram, þá er jeg ekki á móti, að launin hækki, þegar að því kemur, að launalögin verða tekin til endurskoðunar. Jeg hefi jafnvel ekki á móti því, að kjör yfirsetukvenna yrðu bætt heldur meira en frv. fer fram á, þegar þar að kemur.

Jeg skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vænti, að hv. n. taki til athugunar tillögu mína.

Þá skal jeg að lokum geta þess, að jeg mundi geta fallist á, að að þessu sinni yrði lægst launuðu yfirsetukonunum bætt að nokkru laun þeirra, þar til endurskoðun launalaganna fer fram, sem væntanlega verður á næsta þingi.