07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

51. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Umr. um þetta mál eru nú farnar að dragast mjög á langinn, og geri jeg því tæplega ráð fyrir, að nokkuð þýði að bæta við þær. Enda hafa engin ný rök fram komið í málinu upp á síðkastið. Jeg mun því verða stuttorður. Þó hefir eitt nýtt komið fram í þessu máli, sem sje krafa um svo mikil laun ljósmæðrum til handa, að þær þurfi ekki að gefa sig í algenga vinnu. Þetta er alveg ný röksemd fyrir launahækkun ljómæðra, og skal jeg viðurkenna, að þetta skiftir nokkru máli að því er virðist í fljótu bragði. En það þarf ekki lengi að íhuga þetta atriði til þess að sjá, að slíkt er svo fjarri öllum veruleika, að engu tali tekur. Jeg held, að flestar ljósmæður í sveitum vinni algenga vinnu, eftir því sem kringumstæður krefja; þær eru húsmæður, ganga að eldhúsverkum, fjósverkum og heyvinnu, þegar á þarf að halda. Og jeg býst við, að við höfum seint efni á að launa ljósmæður svo, að þær þurfi ekkert annað að hafa fyrir stafni.

Það var ekkert sjerstakt í ræðu hv. þm. Snæf., sem jeg hefi ástæðu til að minnast á. Hann talaði um, að ef till. mínar væru samþ., yrði málið að ganga til Nd., og gæti það orðið því að falli. En hann gleymir því, að jafnvel þótt frv. sje samþ. óbreytt eins og það er nú, þá verður það að ganga til Nd. eigi að síður. Enda er jeg þess fullviss, að það verður ekki málinu að falli.

Hv. frsm. meiri hl. dró það í efa, að útreikningar mínir væru rjettir. Jeg skal þá taka dæmi af handahófi um einn hrepp í Árnessýslu. Fólksfjöldinn er 325. Laun ljósmóðurinnar eru 200 kr., að viðbættri aldurshækkun 50 kr. Þar við bætist dýrtíðaruppbót, sem er 100 kr. Samanlagt verða þetta 350 krónur. Þetta er eftir núgildandi launakjörum. Sama ljósmóðir fær eftir frv. 300 kr. laun, 100 kr. aldursuppbót og 160 kr. dýrtíðaruppbót, eða í samtals 560 kr. laun. Í þessu tilfelli er launahækkunin sennilega heldur minni en alment, enda myndi það koma í ljós, ef víðar væri reiknað út, í að áætlun mín væri ekki fjarri sanni.

Þá kem jeg að einu atriði, sem hv. í frsm. meiri hl. drap á. Hann hjelt því fram, að þegar sveitarstjórnir gerðu ráðstafanir til þess að láta ungar stúlkur læra ljósmæðrastörf, til þess að setjast síðan að í þeirra umdæmi, þá benti þetta mjög á tilfinnanlegan skort ljósmæðra úti um sveitir landsins. Þetta þarf ekki endilega að vera svo. Þetta er blátt áfram eitt af þeim í málum, sem sveitarstjórnirnar telja sjer skylt að hlutast til um. Með þessu vilja sveitarstjórnirnar hafa íhlutun með því, hverjar veljist til starfans, og sömuleiðis, að þær vilja ekki eiga á hættu að verða að bíða svo og svo lengi eftir því, að einhver sæki um. Þetta á sjer einkum stað um hinar afskektari sveitir. Það eru margvísleg mál, sem sveitarstjórnimar láta sig skifta, og öll ganga þau afskifti þeirra í þá átt, að sveitarfjelögunum verði þetta eða hitt að sem mestu gagni. Það er algengt, að sveitarstjórnir útvegi ljósmæðrum verustað og setji þær þar, sem best hagar til. Þetta er í sjálfu sjer gott og eðlilegt. Jeg geri ráð fyrir, að í Reykjavík þekkist þetta ekki í eins ríkum mæli og úti um sveitir lands; t. d. í sveitinni gera menn nauðsynlegar kynbótaráðstafanir fyrir stór svæði, en slíkt myndi ef til vill vekja hneyksli hjer í Reykjavík. Jeg verð að telja allar þvílíkar ráðstafanir mjög nauðsynlegar, enda mun það oft vera svo, að þar sem vantar yfirsetukonu í umdæmi, hefir sveitarstjórnin ekki gert eins og henni bar til þess að útvega hana. Og jeg er ekki í hinum minsta vafa um það, að þessu máli væri að fullu borgið, ef sveitarstjórnirnar tækju það í sínar hendur. Jeg tel það mun heppilegri leið en að hækka launin fram úr öllu hófi. Sú leið gefur ekki fullkomna tryggingu fyrir því, að ráðin verði bót á ljósmæðraeklunni úti til sveita.

Jeg skal svo að lokum taka það fram, að af minni hálfu er jeg reiðubúinn að slíta þessum umr., enda býst jeg ekki við, að þær færi mikið nýtt fram í dagsins ljós.