06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (2567)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Sveinn Ólafsson:

Jeg get ekki komist hjá að svara hv. 1. þm. Árn. (JörB) örfáum orðum, þó að mjer sje nauðugt að deila við hann. Hjá honum kennir óeðlilega mikils misskilnings á þessu máli. Jeg er viss um að hann hefir ekki kynt sjer það eins og skyldi. Hann var að tala um, að þetta væri hættulegt nágrenni fyrir Reyðarfjarðarhrepp. Nábýlið verður ekkert nær en það er, því að Reyðarfjarðarhreppur á land fast að kauptúninu. Nágrennið verður það sama.

Hv. þm. fullyrti, að Eskifjarðarhreppur ætti nóg land. Þetta er vitleysa. Hreppurinn á ekkert land. Einstakir menn eiga þarna tvær smájarðir, Lambeyri og Bleiksá, og á því landi stendur kauptúnið. Landsnytjar, sem kauptúnið fær að nota, eru bæði litlar og rýrar, og nú er svo komið, að mikill hluti af íbúunum getur hvorki haft kindur nje nautgripi. Fyrir þá fáu menn, sem eiga búfjenað, eru mestu vandræði með að koma honum fyrir á högum, alla hagbeit verður að sækja til jarða í Helgustaða- eða Reyðarfjarðarhreppum. Það er því bygt á misskilningi, ef hv. 1. þm. Árn. heldur, að íbúar kauptúnsins eigi kost á ræktanlegu landi. Ríkið á ekkert land þarna nálægt nema Hólma og getur með sölu þessa hluta af Hólmalandi bætt þarna úr brýnni þörf.

Þá segir hv. þm. og hv. 1. þm. Reykv. (MJ), að þetta forna og fræga höfuðból verði skemt ósæmilega með sölu landsins. Jú, það minkar að vissu leyti, Hólmanes hverfur, en höfuðbólið Hólmar heldur áfram að vera til og verður stór jörð eftir sem áður. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að verið geti stórbú á Hólmum, þó að nesið sje selt, alt besta og verðmætasta landið verður eftir. Hv. þm. hafa vitnað í brjef biskups, þar sem hann segir meðal annars, að varpið muni rýrna. En hvernig má það verða ? Umferð er daglega á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar fram hjá hólmunum og milli þeirra. Hún verður ekki meiri, þó að ræktað verði nokkurt land yfir á nesinu. Jeg hjelt, að fyrst og fremst bæri að líta á það, hvar nauðsynin væri. Og nauðsynin er einmitt hjá Eskfirðinguin, því að Eskifjörður á ekkert land og þar er hin mesta örtröð. Auk þess er þetta hólmaland nær ekkert notað og varla túskildingsvirði, liggur mjer við að segja, eins og nú er ástatt, en getur orðið til mikilla nytja fyrir kauptúnið. Jeg hjelt, að sú þörf væri meira verð en sá hjákátlegi metnaður, að vilja láta útkjálka þessa höfuðbóls liggja í eyði, engum að gagni.

Kauptúnið á ekki kost á neinu landi til kaups, að því undanteknu, að síðustu daga hefir því boðist kaup á lítilli hjáleigu frá Eskifirði, Borgum, en það litla land er grýtt og votlent og ekki vænlegt til ræktunar, en auk þess mun verðið geysihátt. Þó að kauptúnið fengi þessa litlu jörð, er það svo langt frá því að hún fullnægi þörfum þess, að hún er ekki nema fjórði eða fimti hluti af því, sem þörfin krefur í bili.