12.03.1929
Efri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

60. mál, einkasala á lyfjum

Jónas Kristjánsson:

Hv. 4. landsk. (JBald) mintist á tóbakseinkasöluna í sambandi við það mál, er hjer liggur fyrir, og hafði þau orð eftir hv. 1. þm. Skagf., að hún hafi gefist vel. Ef jeg man rjett, sagði hann, að tóbakseinkasalan hefði ekki brugðist sínum vonum. Annars þótti mjer það best við tóbakseinkasöluna, að hún seldi minna af tóbaki en áður var gert. Ástæðan fyrir því var sú, að með einkasölufyrirkomulagi er afgreiðsla jafnan lakari, og erfiðara er að fá vöru, sem líkar. Þótt það sje gott, að litið sje selt af tóbaki, þá er slíkt ekki gott, ef um lyf er ræða, en jeg býst við því, að útkoman yrði sú sama, ef tekin væri upp einkasala á lyfjum.

Þá fanst mjer hv. þm. ekki taka nægilegt tillit til þess, að alt verð á lyfjum er ákveðið eftir gjaldskrá, er læknar og lyfsalar fara eftir. Einnig ber þess að gæta, að þótt lyfin væru keypt í einu lagi, yrði að sjá til þess, að landið skaðaðist ekki á sölunni. Býst jeg við því, að tilhneiging yrði til þess að hafa verðið heldur í hærra lagi, en afleiðing þess yrði sú, að lyfin yrðu dýrari almenningi en áður.