09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Ræður hv. flm. frv. hafa nú ekki gefið tilefni til langra andsvara. Jeg mun bara draga saman úr umr. það helsta, sem fram hefir komið.

Meiri hl. vill vísa málinu til stjórnarinnar á þeim grundvelli, að málið verði undirbúið undir frekari framkvæmdir síðar. En minni hl. vill fara lengra en þetta. Hann vill ákveða það nú strax, hvernig kostnaði skuli skift þegar til framkvæmda kemur. Getur því ríkið ekki samkv. frv. skotið sjer undan þeim kröfum, sem fram koma, enda þótt miklar verði. — Þetta þótti mjer of langt farið, að jafnórannsökuðu máli.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði það um íhaldsflokksþingmennina, að hann vildi ekki ætla þeim þá fúlmensku að bera fram mál, sem þeim væri engin alvara með. Hann vísaði nú reyndar til þess, að jeg kynni að þekkja þá betur. Það er nú rjett, að jeg hefi talsverðan kunnleika á íhaldsmönnum fyrir langa sambúð, frekar máske en mikla samvinnu. Sú kynning tekur yfir mörg ár, bæði utan þings og innan. Og sú kynning einmitt styrkir það, sem jeg sagði í gær, um tilgang Íhaldsflokksins. með þessu frv. — Hv. 5. landsk. sagði, að jeg mundi vera móti þessu frv. af þjóðnýtingar ástæðum. Moggi tekur síðan upp þá reginvitleysu. — En hjer er einmitt hv. 3. landsk. um að saka, ekki síður en mig, ef sök skal vera. — Því þeim hv. þm. (JÞ), sem mest hefir um þetta mál hugsað af flm. þess, dettur ekki annað í hug, en að á þessu verði opinber rekstur, sveita-, sýslu- eða hjeraðsrekstur.

Mjer finst að hv. 2. landsk. (IHB), sem talaði svo fagurt um nauðsyn heimilanna fyrir rafmagn, ætti að tala um fyrir sínum eigin flokki, sem hefir hjer í Reykjavík staðið á móti virkjun Sogsfossanna, þótt sannað sje, að það fyrirtæki geti staðið á eigin fótum fjárhagslega. Íhaldsmenn verða að skilja það, að þegar þeir standa á móti slíkum málum, þar sem þeir eru í meiri hl., að ekki er ástæðulaust þótt þeim væri brugðið um fláttskap í þessu máli. — Þá sagðist hv. 5. landsk. (JKr) hafa verið með Byggingar- og landnámssjóðnum. Jeg vil nú gjarnan taka yfirlýsingu hans um þetta gilda, en hv. þm. var áreiðanlega á móti búfjártryggingarlögunum. Og það er líka víst, að þál. um Byggingar- og landnámssjóð, er lá fyrir Sþ. 1927, komst ekki fram vegna mótspyrnu Íhaldsflokksins. Hv. 3. landsk. og hv. 1. þm. Skagf. töluðu báðir móti henni þá. Enda var sá flokkur ávalt á móti þeim lögum. Og það er engin dygð, þótt hv. 5. landsk., eða aðrir, sjeu með góðum og nauðsynlegum málum, þegar sýnt er, að mótstaða þeirra getur ekki lengur orðið málunum að falli.