06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í C-deild Alþingistíðinda. (2700)

1. mál, lánsfélög

Halldór Stefánsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. á þskj. 241, sem eru allfyrirferðarmiklar, bæði að efni og formi. Jeg mun nú ekki halda mig svo mjög við hinar einstöku brtt., eins og þær liggja fyrir, heldur fara nokkrum orðum um þau efnisatriði, sem þær eru bygðar á.

Það er þá fyrst, að jeg vil gera ráð fyrir því, að þær stofnanir, sem milligöngu eiga að hafa um rekstrarlán, verði einnig látnar hafa milligöngu um bústofnslán. Er margt líkt um þau lán, og sömu ástæður hægt að færa fram með báðum. Ein höfuðástæðan fyrir milligöngu þessara stofnana er sú, að greiða með því fyrir viðskiftum almennings þannig, að hann eigi aðgang að stofnun, sem hann getur auðveldlega náð til, en þurfi ekki að skifta við stofnun í fjarlægð, út á ysta landshorni. Þetta á jafnt við um bústofnslánin og rekstrarlánin.

Þá er og það líkt, að hvorttveggja lánin eru veitt til stutts tíma og álíka trygging fyrir báðum, sem er þess eðlis, að náinn kunnugleik þarf á högum lántakanda og tryggingu þeirri, er hann getur í tje látið, og eftirlit með henni. — Með þessu móti, ef verksvið milligöngustofnananna er fært út á fleiri lántegundir, næst það, sem er mikilsvert atriði um öll lán, sem standa eiga stuttan tíma, að auðvelt sje að nálgast þau og hægra að koma af sjer greiðslu.

Þá er það annað höfuðatriði, að lagt er til, að mynda megi samskonar fjelagsskap um bústofnslán, sem frv. gerir ráð fyrir um rekstrarlán. Fjelagsskapur á borð við þetta, sem jeg legg til, er ekki nýr. Hann er allvíða þektur, að minsta kosti á Austurlandi. Þar hefir hann reynst vel, komið að góðu liði og engin áföll nje erfiðleikar verið samfara starfrækslu hans. En þessi samtök hafa haft afarerfiðan aðgang að lánsstofnunum. Bjargráðasjóður hefir að vísu nú undanfarið veitt þeim lán, en hann hefir takmarkað fje til umráða. Jeg geri með tillögum mínum ráð fyrir því, að fjelagsskap til bústofnskaupa megi mynda á sama grundvelli og til rekstrarlána. Hygg jeg, að þetta fyrirkomulag sje hentugt og geti eins komið til greina um bústofnslán eins og um rekstrarlán.

Þá er þriðja atriðið það, að jeg vil gera ráð fyrir því í lögum þessum, að umboðsskrifstofur þær, sem um getur í 65. gr. Búnaðarbankafrumvarpsins, geti verið milliliðir um lán, samskonar og þær stofnanir aðrar, sem nefndar eru í frv. þessu. Mjer finst að öllu leyti eðlilegt að nota umboðsskrifstofur bankans sjálfs til milligöngu um lántöku. Það getur verið þannig ástatt, að ekki sje þægilegt að ná til milliliða þeirra, sem frv. gerir ráð fyrir. Gæti þá verið haganlegra, að bankinn hefði þar umboðsskrifstofur. Þá gætu þær skrifstofur einnig tekið á móti sparisjóðsinnlögum fyrir hönd sparisjóðsdeildar Búnaðarbankans og verið þannig einskonar útbú frá bankanum, sem almenningur gæti skift við, og í raun og veru langeðlilegasti milliliðurinn. Ættu þær þá jafnframt að taka á móti sparifje manna. Það veitir hvöt til sparnaðar og getur orðið til að bjarga mörgum eyri frá eyðslu, að menn eiga handhægan kost á að koma fje á vöxtu.

Fjórða áðalefnisbreytingin er sú, að jeg vil heimila, að rjetturinn til lána frá þessum stofnunum sje ekki eingöngu bundinn við lánsfjelög, heldur hafi og einstakir menn aðgang að þeim líka. Mjer þykir ekki rjett að gera það að skýlausri skyldu fyrir rjetti til lána, að ganga í lánsfjelag, ef einstaklingarnir hafa hæfilegt veð að bjóða fyrir láni sínu. Það er náttúrlega nokkur fyrirhöfn og umsvif samfara því, að vera í þessum fjelagsskap, og miklum mun frjálslegra, ef menn eiga kost á að eiga bein viðskifti um þessi rekstrarlán, þó að fjelagsskapur geti og verið nauðsynlegur fyrir þá, sem erfiðasta aðstöðu eiga.

Á þessum fjórum efnisatriðum byggjast till. mínar, og er því skiljanlegt, af hverju þær eru svo fyrirferðarmiklar, en þær eru svo bundnar saman innbyrðis, að jeg sje ekki ástæðu til annars, ef 1. og 2. brtt. er feld, en að taka hinar aftur.

Jeg sje ekki brýna ástæðu til að fara út í brtt. n., þó að jeg hafi að vísu hugsað mjer það. Jeg vil þó geta þess, að mjer þykja fæstar brtt. n. til bóta, þó get jeg ef til vill fallist á 4. og 5. brtt.