21.02.1929
Efri deild: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í C-deild Alþingistíðinda. (2794)

21. mál, atkvæðagreiðsla um nafn Ísafjarðarkaupstaðar

Halldór Steinsson:

Hv. 4. landsk. (JBald) tók að mestu leyti af mjer ómakið. En jeg vildi aðeins spyrja hæstv. ráðh., hvort það sje eftir tilmælum manna á Ísafirði, að stjórnin flytur þetta frv. Mjer er tjáð, að almenningur þar vestra sje breytingunni mótfallinn. Sjálfur sje jeg ekki annað en að Ísafjörður sje gott nafn og nokkurnveginn gamalt. Tel jeg þetta mál of lítilfjörlegt til að eyða í það löngum tíma. Mun jeg greiða atkvæði gegn því, að það fari til 2. umr.