05.04.1929
Efri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

26. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Hv. minni hl. mentmn. (JÞ) vildi snúa öllum ummælum mínum um þetta mál í villu. Í fyrsta lagi taldi hann, að það væri ekki rjett, að engin löggjöf væri til um þetta efni. Hann viðurkendi þó, að ekki væri til nein landslöggjöf um þetta, heldur aðeins ákvæði í lögreglusamþyktum kaupstaðanna, og verð jeg að telja það alveg ófullnægjandi. Aðalatriðið er í mínum augum myndskoðunin, en í þeim lögreglusamþyktum, sem jeg hefi sjeð, er hún ekki fyrirskipuð, heldur aðeins heimiluð lögreglustjórunum. Veit jeg ekki til að þessu hafi verið breytt. Hv. minni hl. vildi halda því fram, að myndskoðunin væri ótryggari eftir fyrirmælum þessa frv. heldur en hún er nú. Jeg get ekki skilið þetta, því að nú er hún aðeins heimiluð, en eftir frv. á að fyrirskipa hana, og hlýtur hún þá að verða stórum tryggari, og það legg jeg aðaláhersluna á. Hann vildi líka halda því fram, að kvikmyndasýningarnar hefðu ekki haft spillandi áhrif hingað til, og vildi gera lítið úr upplestri mínum áðan. Þetta er þó alment viðurkent, og lögreglunni var það fyllilega ljóst, að glæpir barnanna stöfuðu aðallega frá óhollum kvikmyndum, þó að ef til við hafi verið gert of mikið úr því. Hljóta allir að skilja það, að það getur ekki verið holt eða heilsusamlegt fyrir börn og unglinga að horfa á þjófnað og aðra stórglæpi á kvikmyndum. Jeg held að það verði ekki hrakið, að myndskoðun sje afar nauðsynleg og sjálfsagt að fyrirskipa hana. Hitt get jeg gengið inn á með hv. 3. landsk., að það sje ef til vill ekki hyggilegt að hafa myndskoðunina á svo mörgum stöðum sem frv. gerir ráð fyrir. Þó er það álitamál.

Hvað viðvíkur þjóðleikhúsinu, þá verð jeg að álíta, að því væru tryggari hlunnindin af leyfisveitingum, ef veitingarvaldið væri í höndum ríkisstjórnarinnar, en ekki bæjarstjórnarinnar. Þó að alt líti vel út nú, þá er ekki hægt að búast við, að bœjarstjórnin beri þjóðleikhúsið til langframa fyrir brjósti heldur en kvikmyndahúsin. Annars virðist þetta vera nokkuð viðkvæmt mál hjá þessum tveim aðalflokkum hjer í þessum bæ, og lítur út fyrir, að einhver pólitík sje komin með í spilið.

Hv. 3. landsk. hjelt mjög fram löggjöf Svía okkur til fyrirmyndar, og taldi hana þá bestu um þessi mál. Má það vel vera, en jeg vil þá benda á, að því verður ekki mótmælt, að löggjöf Svía setur mjög strangar reglur um myndskoðun, og megum við því taka okkur þá til fyrirmyndar þar. Hv. þm. vildi halda því fram, að skatta-ákvæði frv. væru of há. Jeg skal játa, að jeg er ekki vel fær til þess að skera úr því, en reynslan mun eflaust sýna, hvað hæfilegt er, og þá má laga þetta í hendi sjer. Ýmislegt virðist mjer samt benda til þess, að þetta sjeu mjög svo arðvænleg fyrirtæki. Hv. 3. landsk. taldi, að Alþýðuflokkurinn hjer mundi vilja fá sýningarleyfi, en það mundi hann ekki gera, ef ekki væri gróðavon að því, og þá er ekki nema rjettmætt að skattleggja þetta nokkuð. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um skuldir bíóanna hjer, og þær eru svo litlar, að mjer ofbýður alls ekki. Þó eru þetta stór og dýr hús, og þegar hægt er að koma þeim upp án þess að safna stór-skuldum, þá hlýtur hagnaðurinn að vera allverulegur. Hv. 3. landsk. hjelt því fram, að með brtt. meiri hl. væri verið að rýra tekjur bæjarsjóðanna af þessari starfsemi. Jeg efast aftur á móti stórlega um þetta, þar sem 1/3% af skattinum á að renna í sveitar- eða bæjarsjóð, þar sem kvikmyndahúsið er, og kemur þar mikið á móti því, sem niður fellur.

Það er nú orðið þunnskipað í deildinni og því ekki ástæða til þess að fjölyrða, en þó verð jeg að víkja nokkrum orðum að brtt. frá hv. 4. landsk. (JBald) á þskj. 265, við brtt. okkar á þskj. 199. 1. brtt. er við 3. gr., um að 1. málsgr. orðist svo, að leyfi megi ekki veita til lengri tíma en 10 ára, í stað þess, að eftir frv. á leyfi að gilda í 5 ár og samkv. brtt. meiri hl. í 10 ár. Brtt. hv. 4. landsk. fer þannig fram á að einskorða ekki leyfið við ákveðið árabil, og getur meiri hl. fyrir sitt leyti fallist á það. 2. brtt. er við 13. gr., og er hún í þrem stafliðum, a, b og c. a-liðurinn er þess efnis, að í stað „30“ í upphafi formúlunnar í 1. málsgr. komi 20. Þetta er þá gert til þess að lækka skattinn um 1/3, en meiri hl. sjer ekki ástæðu til þess, og getur því ekki fallist á það. b-liður sömu brtt. er um það, að í meðalverði sæta, sem á að skattleggja, skuli innifalin öll gjöld, sem greiða þarf til þess að fá aðgang að sýningu, önnur en skemtanaskattur. Þetta hefir þá þýðingu, þar sem skemtanaskatturinn er 1/10 af sætaverði, að skatturinn sjálfur lækkar í sama hlutfalli. Þetta hefir mikið til síns máls, og er ef til vill ekki rjett að leggja toll á toll. Er meiri hl. hlutlaus um þetta atriði og hefir óbundið atkv. (JBald: c-liðurinn er tekinn aftur). Þarf jeg þá ekki að fjölyrða frekar um þessa brtt. Þá er 3. brtt. og hún er um það, að lögin öðlist gildi þegar í stað er þau fá staðfestingu. Í frv. stendur, að þau skuli öðlast gildi 1. apríl 1929, en þar sem hann er nú liðinn, getur það ekki orðið. Brtt. er því fullkomlega rjettmæt, og telur meiri hl. sjálfsagt að fallast á hana.